Í dag var boðað var til blaðamannafundar í Höfðatorgi þar sem kynntur var þriggja ára samstarfssamningur milli Handknattleikssambands Íslands, Olís og 365.

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ hóf fundinn með stuttri kynningu á samningnum og deildarkeppninni næstu vetur. Þar kom m.a. fram að efstu deildir karla og kvenna bera áfram nafnið Olísdeildin á meðan næst efstu deildirnar fá nafnið Grill66 deildin.

Sunnudagar og mánudagar verða leikdagar í Olísdeild karla og verða tveir leikir sýndir í beinni útsendingu í hverri umferð. Olísdeild kvenna verður leikin á þriðjudögum og verður sýnt frá einum leik í hverri umferð. Alls verður sýnt frá 63 leikjum í Olísdeildinni í ár. Auk þess verða uppgjörsþættir á Stöð2Sport.

Ingibjörg S. Pálmadóttir forstjóri 365, Jón Halldórsson forstjóri Olís og Guðmundur B. Ólafsson skrifuðu undir samninginn í húsakynnum Olís í Höfðatorgi en samningurinn gildir til þriggja ára.

Guðmundur B. Ólafsson sagði eftir undirskriftina að hann væri ánægður með þennan nýja samning við Olís, undanfarin 4 ár hefur Olís stutt dyggilega við bakið á íslenskum handknattleik og því væri það ánægjuefni að skrifa undir nýjan þriggja ára samning við fyrirtækið. Samstarfið við 365 á eftir að auka mjög fjölmiðlaumfjöllun um Olísdeildirnar og þannig veg handboltans hér á landi. Guðmundur talaði einnig um að mikil ánægja væri innan hreyfingarinnar með þennan nýja samning við Olís og 365, margir landsliðsmenn séu að koma heim um þessar mundir og spili í deildinni á næstu leiktíð ásamt okkar framtíðarstjörnum sem voru áberandi á nýliðnu Íslandsmóti. Framtíðin handboltans sé því í björt.

Jón Halldórsson, forstjóri Olís sagði við undirritun samningsins að það væri mikill hugur í fólki. „Við bindum miklar vonir við að umfjöllun 365 verði lyftistöng fyrir deildirnar. Samstarf Olís og HSÍ hefur gengið vel síðustu 4 ár og við hlökkum til að efla það samstarf enn frekar. Svo er mjög jákvætt að 1. deild karla og kvenna fái heiti eins og Grill 66-deildin sem vonandi gefur deildinni meira vægi.“