Stjórn Handknattleikssambands Íslands hefur ákveðið að efla til muna afreksstarf sambandsins. Í því skyni hefur verið ákveðið að útbúa nýtt starf afreksstjóra til að móta og fylgja eftir afreksstefnu sambandsins.

Einar Þorvarðarson mun taka við því starfi og samhliða því mun Róbert Geir Gíslason taka við sem framkvæmdarstjóri HSÍ. Róbert er öllum hnútum kunnugur innan HSÍ og hefur starfað á skrifstofu sambandsins í rúman áratug.

Breytingarnar taka gildi 1. maí nk.

Formaður HSÍ, Guðmundur B. Ólafsson segir að þessi breyting muni styrkja sambandið. „
Með þessum breytingum er bæði verið að auka áherslu á fræðslu- og afreksstarf sambandsins sem og að þétta starfið í kringum deildarkeppnir, yngri flokka og almenna umsýslu sambandsins. Sérstaklega verður að þakka Einari fyrir frábært starf fyrir sambandið sem framkvæmdastjóri þess um árabil og teljum við að með því að ráða hann í stöðu afreksstjóra HSÍ þá mun þekking Einars og reynsla nýtast sem best áfram.“„Ég hlakka til að snúa mér alfarið að afreksstarfi HSÍ. Við erum með landslið í öllum aldursflokkum í fremstu röð og því eru verkefnin framundan spennandi“ segir Einar Þorvarðarson.

„Það er spennandi áskorun að taka við sem framkvæmdastjóri HSÍ og mörg ögrandi verkefni framundan“ segir Róbert Geir Gíslason.
„Ég mun fylgja eftir því góða starfi sem unnið hefur verið í tíð eldri framkvæmdastjóra en með nýjum aðilum koma nýjar áherslur og er það stefna mín og stjórnar HSÍ að handknattleikur verði áfram okkar þjóðaríþrótt“.

Nánari upplýsingar gefur Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.