HSÍ hefur undanfarið kallað eftir gögnum frá Handknattleikssambandi Evrópu og Alþjóða Handknattleikssambandinu varðandi þá ákvörðun að úthluta Þýskalandi lausu sæti á HM í Qatar 2015.
Í svari frá EHF kemur fram að engar upplýsingar hafi verið sendar til þeirra varðandi þessa ákvörðun og hafa þeir bent á IHF. 

Í svari IHF frá í gær eru gefnar skýringar á því af hverju Eyjaálfa er svipt keppnisrétti. Vísað er til fyrri samskipta á milli IHF og Eyjaálfu  og er HSI ekki í stöðu til að meta lögmæti þeirrar ákvörðunar en hefur efasemdir um að sú afturvirka ákvörðun standist lög eftir að keppni er hafin. 
Varðandi þá ákvörðun að úthluta sætinu til Þýskalands er fullyrt af hálfu IHF að ákvörðun um breytingar á grein 2.8 sem fjallar um hvernig úthluta eigi lausu sæti hafi verið tekin af Council IHF þann 30. maí sl. og það hafi verið gert til að breytingin tæki gildi áður en fyrir lægi hvaða lið hafi tryggt sér keppnisrétt í gegnum umspil.  
Við höfum fengið það staðfest af fulltrúum í Council IHF að enginn fundur var haldinn þann 30. maí.   Hins vegar virðist sem tölvupóstur hafi verið sendur til fulltrúa og óskað eftir heimild til að vinna að breytingu á reglugerð.
Það er því ljóst að ákvörðunin var ekki tekin 30. maí eins  og fullyrt er heldur var það gert 8. Júlí.
Þetta er í samræmi við þá staðreynd að umrætt mál var ekki  rætt á stjórnarfundi í EHF í júní og auk þess EHF gaf út yfirlýsingu þann 16. júní að Ísland væri fyrsta varaþjóð inn á HM í Qatar 2015.
HSÍ lítur svo á að þegar breytingar eru gerðar á þátttöku- eða keppnisreglum þá taki þær reglur ekki gildi fyrr en næsta keppni hefst.  Á það enn frekar við þegar íþyngjandi ákvörðun er að ræða. Byggir þetta á almennum lögskýringarsjónarmiðum sem gilda jafnt um reglur IHF sem og aðrar reglur.
Er ákvörðun þann 8. júlí var tekin var undankeppnin hafin og umspilsleikjum lokið og fyrir lá hvaða lið áttu rétt á lausu sæti væri það í boði. 
HSI hefur gert þær kröfur til IHF að Íslandi verði úthlutað þessu sæti nú þegar og hefur jafnframt krafist þess að formaður EHF sem jafnframt er  meðlimur í ráðinu beiti sér fyrir því . Krefist hefur verið svara fyrir lok dags 17. Júlí. 
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ
Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ