FH-ingar höfðu í kvöld betur gegn Val, 44-40, í tvíframlengdum, hádramatískum og afar eftirtektarverðum leik í undanúrslitum Coca-Cola bikarkeppni karla. FH mætir annað hvort ÍBV eða Haukum í úrslitaleik keppninnar á laugardag.

Leikur FH-inga og Valsmanna í kvöld var lengstum jafn og spennandi og skrifa mætti lærða grein um gang mála framan af, en það voru lokamínútur venjulegs leiktíma og framlengingarnar tvær sem handboltaáhugafólk kemur til með að skeggræða fram eftir hausti. 

Valsmenn voru lengstum skrefinu á undan í leiknum, en náðu aldrei að hrista FH-inga af sér. Valsmenn voru tveimur mörkum yfir þegar 30 sekúndur voru til leiksloka, en þá skoraði Daníel Matthíasson fyrir FH-inga, minnkaði muninn í 31-32, og kveikti vonarneista í augum Hafnfirðinga. Valsmenn misstu boltann í næstu sókn og FH-ingar tóku leikhlé þegar tíu sekúndur voru til leiksloka. Lokasóknin virtist ætla að renna út í sandinn þegar Ísak Rafnsson tók til sinna ráða, negldi boltanum í netið um leið og lokaflautan gall, 32-32.

Framan af fyrri framlengingunni virtust Valsmenn líklegri til afreka, þeir voru sem fyrr hálfu skrefi á undan og virtust vera á góðri leið með að skrifa lokakaflann þegar þeir fengu vítakast í stöðunni 38-37 og rúm hálf mínúta til leiksloka. Ágúst Elí, sem fór hamförum í framlengingunni, varði víti Kára Kristjáns, Valsmenn héldu boltanum en náðu ekki að skora. Það gerði hins vegar Ísak nokkur Rafnsson á hinum enda vallarins, aftur rétt í þann mund sem leiktíminn rann út. Grípa varð til annarrar framlengingar og þar náðu FH-ingar að rífa sig frá Hlíðarendapiltum, ekki síst fyrir ljómandi frammistöðu Ágústs Elí í markinu. Ísak hélt áfram að raða inn mökum og FH-ingar fögnuðu torsóttum en sætum sigri, 44-40.

Mörk Vals: Geir Guðmundsson 10, Alexander Örn Júlíusson 8, Guðmundur Hólmar Helgason 7, Kári Kristján Kristjánsson 6 (2 víti), Finnur Ingi Stefánsson 5, Vignir Stefánsson 3, Atli Már Báruson 1.

Varin skot: Hlynur Morthens 9, Stephen Nielsen 3.

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 14 (4 víti), Ísak Rafnsson 11, Theodór Ingi Pálmason 6, Benedikt Reynir Kristinsson 4, Halldór Ingi Jónasson 4, Andri Berg Haraldsson 2, Magnús Óli Magnússon 2, Daníel Matthíasson 1.

Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 15, Brynjar Darri Baldursson 7.