ÍBV bar sigurorð af Haukum 23-21 í síðari undanúrslitaleik Coca-Cola bikarkeppni karla í Laugardalshöll í kvöld. Haukar höfðu forystu í hálfleik, 14-10, og náðu mest sex marka forystu í síðari hálfleik, en Eyjahjartað fór að slá örar eftir því sem á leið og með frábærri baráttu og öflugri liðsheild tókst Eyjamönnum að snúa taflinu sér í vil. ÍBV mætir FH í úrslitaleik Coca-Cola bikarkeppni karla klukkan 16 á morgun í Laugardalshöll.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleiknum, baráttan í algleymingi og skemmtanagildi leiksins eins og best verður á kosið. Giedrius Morkunas í mark Hauka fór hins vegar að blanda sér æ meira í málin og Hafnfirðingar geta að stórum hluta þakkað honum að þeir höfðu fjögurra marka forystu í hálfleik, 14-10. 

Haukarnir litu vel út framan af síðari hálfleik, vörnin ágætlega þétt fyrir framan Morkunas í miklu stuði og stemmningin öll Hafnfirðinga. Það er hins vegar gömul saga og ný að Eyjamenn hreinlega kunna ekki að leggja árar í bát og með ótrúlegri baráttu og samheldni tókst þeim að snúa leiknum sér í vil. Eyjamenn skoruðu níu mörk í röð á ótrúlegum stemmningskafla og á meðan tiltrú þeirra jókst með hverju  marki virtist hún sogast úr Haukamönnum. Eyjamenn slógu hvergi slöku við á lokakaflanum, sigurviljinn var þeirra og tveggja marka sigur staðreynd. Miðað við stöðu mála í upphafi síðari hálfleiks er harla ótrúlegt að úrslit leiksins skyldu verða þessi, en þetta er einmitt það sem Coca-Cola bikarkeppnin hefur upp á að bjóða.

Mörk ÍBV: Agnar Smári Jónsson 6, Theodór Sigurbjörnsson 5, Hákon Daði Styrmisson 4, Magnús Stefánsson 3, Einar Sveinsson 2, Guðni Ingvarsson 1, Grétar Þór Eyþórsson 1, Andri Heimir Friðriksson 1.

Varin skot: Kolbeinn Aron Arnarson 7, Henrik Vikan Eidsvag 3.

Mörk Hauka: Janus Daði Smárason, Einar Pétur Pétursson 3, Jón Þorbjörn Jóhannsson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Þröstur Þráinsson 2 (1 víti), Árni Steinn Steinþórsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Heimir Óli Heimisson 1, Leonharð Harðarson 1 (1 víti).

Varin skot: Giedrius Morkunas 21.