Í hádeginu var dregið í fyrstu umferðir EHF Cup og Challenge Cup. Fjögur íslensk karlalið voru í pottinum; Valur, FH og Afturelding í EHF Cup og ÍBV í Challenge Cup.

Íslandsmeistarar Vals mæta ítalska liðinu SSV Bozen Loacker Volksbank í fyrstu umferð EHF bikarsins. Komist Valsmenn áfram í næstu umferð mæta þeir þar Balatonfüredi KSE frá Ungverjalandi.

Deildarmeistarar FH mæta gamla stórveldinu HC Dukla Praha frá Tékklandi, en komist FHingar áfram í næstu umferð bíður þeirra þar St Petersburg HC frá Rússlandi.

Afturelding mætir BSK handball Elite frá Noregi, komist Mosfellingar áfram mæta þeir HC Dobrogea Sud Constanta frá Rúmeníu.

1. umferð í EHF keppninni er leikin 2./3. og 9./10. september.

Í Challenge Cup hefur ÍBV leik í 3. umferð og mætir þar HC Gomel frá Hvíta-Rússlandi. 

Þeir leikir fara fram 18./19. og 25./26. nóvember.