Dregið var í 1. og 2. umferð í EHF-keppninni í morgun. Fjögur íslensk lið voru í pottinum; karlalið FH, Hauka og Selfoss og kvennalið Vals. 

FH dróst gegn Vise frá Belgíu en komist FH áfram verða andstæðingar þeirra norska liðið Arendal. Haukar mæta tékkneska liðinu Talent Plzen og komist Haukar áfram mæta þeir ísraelska liðinu Hapoel Ashdod í næstu umferð. Íslandsmeistarar Selfoss sitja hjá í fyrstu umferð en mæta annaðhvort sænska liðinu Malmö eða rússneska liðinu Spartak Moskva í 2. umferð.

Kvennalið Vals mætir liðinu sænska liðinu Skuru í 1. umferð EHF keppni kvenna og komist liðið áfram bíður rússneska liðið Zvezda Zvenigorod í 2. umferðinni.

Karlalið Vals tekur þátt í Challenge Cup og kemur inn í keppnina í 3. umferð, en í morgun var eingöngu dregið í 2. umferð í Challenge Cup.

Það er ánægjuefni að sjá hversu mörg íslensk lið taka þátt í Evrópukeppni í ár og vill HSÍ óska liðunum alls hins besta.