Íslenska landsliðið, strákarnir okkar, verður í milliriðli tvö á EM, en keppni í honum hefst á morgun í Malmö. Liðin í milliriðli eitt hefja hinsvegar leik í dag í Vínarborg. Leikmenn Spánar og Tékklands ríða á vaðið klukkan 15. Síðan mætast Króatar og Austurríkismenn og loks Hvít-Rússar og Þjóðverjar.
Staðan í milliriðli eitt er sú að Austurríki, Króatía og Spánn hafa tvö stig hver þjóð. Hvít-Rússar, Tékkar og Þjóðverjar eru án stiga.
Staðan í milliriðli tvö þannig að Ungverjar, Norðmenn og Slóvenar hafa tvö stig hver. Ísland, Svíþjóð og Portúgal eru án stiga.
Leikir, leiktímar og dagsetningar leikja Íslands í milliriðli eru sem að neðan greinir:
Föstudagur 17. janúar, Ísland – Slóvenía kl. 15.00
Sunnudagur 19. janúar, Ísland – Portúgal, kl. 13.00
Þriðjudagur 21. janúar, Ísland – Noregur kl. 17.15
Miðvikudagur 22. janúar, Ísland – Svíþjóð kl. 19.30
Lið sjö þjóða eiga möguleika á að tryggja sér tvö af þeim sætum sem eru enn í boði í forkeppni Ólympíuleikanna. Auk íslenska landsliðsins eru það landslið Austurríkis, Hvíta-Rússlands, Portúgals, Tékklands, Slóveníu og Ungverjalands.