Ísland spilaði sinn fyrsta leik í dag í undanriðli EM sem fram fer í Eksjö í Svíþjóð nú um helgina. Liðið mætti sterku liði heimamanna, Svía sem voru ákaft studdir af rúmlega 1000 áhorfendum. Íslenska liðið fór illa af stað og var komið undir 1-5 eftir tæplega 7 mínútna leik. Svíarnir juku forskotið og komust í 5-14 eftir 24 mínútur og Ísland var undir 7-16 í hálfleik.

Svíarnir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og komust í 10-22 eftir 10 mín, en þá náðu Íslendingarnir að skora 5 mörk í röð og laga stöðuna í 15-22. Lengra komumst við ekki því að Svíarnir voru sterkari á endasprettinum og lauk leiknum 21-31 fyrir Svía.

Mörk Íslands skoruðu:

Ómar Magnússon 7

Egill Magnússon 5

Arnar Freyr Arnarsson 2

Birkir Benediktsson 2

Þórarinn Traustason 2

Aron Dagur Pálsson 1

Ragnar Kjartansson 1

Sigtryggur Daði Rúnarsson 1

Einar Baldvin Baldvinsson varði 10 skot og Grétar Ari Guðjónsson 7

Næsti leikur Íslands er á morgun á móti Moldavíu sem tapaði í dag fyrir Grikkjum 23-27. Ljóst er að Ísland þarf að spila mun betur í næstu tveimur leikjum ef liðið ætlar að komast í úrslitakeppni EM sem fram fer í Póllandi í ágúst, en tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram. Leikurinn á móti Moldavíu er kl. 15 á morgun og síðasti leikurinn við Grikkja er kl. 11 á sunnudag að íslenskum tíma.

Hægt er að fylgjast með leikjunum í textalýsingu á slóðinni:

http://ticker.ehf.eu/