Ísland tapaði fyr­ir Svart­fjalla­landi með eins marks mun, 25:24, þegar liðin mætt­ust í undan­keppni Evr­ópu­móts karla í hand­knatt­leik í Bar í Svart­fjalla­landi. Bæði lið hafa nú tvö stig í riðlin­um.

Íslenska liðið byrjaði leik­inn vel og komst meðal ann­ars í 4:1 snemma leiks, þar sem Al­ex­and­er Peters­son fór ham­förum og skoraði fjög­ur fyrstu mörk­in, en hann var tæp­ur fyr­ir leik­inn vegna veik­inda. Svart­fell­ing­ar voru þó fljót­ir að taka við sér og jafna leik­inn, en þeir komust yfir í fyrsta sinn í stöðunni 6:5.

Eft­ir það var jafn­ræðið nokkuð með liðunum, en slæm­ur kafli ís­lenska liðsins um miðbik hálfleiks­ins gaf Svart­fell­ing­um byr und­ir báða vængi og þegar flautað var til hálfleiks var tveggja marka mun­ur á liðunum, staðan 14:12 í hálfleik fyr­ir Svart­fjalla­land.

Ekki byrjaði síðari hálfleik­ur­inn bet­ur, Svart­fell­ing­ar náðu fljótt fimm marka for­ystu á meðan varn­ar­leik­ur Íslands var ekki upp á marga fiska og sókn­ar­leik­ur­inn hélt áfram að hökta. Þegar leið á síðari hálfleik­inn kom hins veg­ar góður kafli hjá ís­lenska liðinu sem skoraði þrjú mörk í röð og minnkaði mun­inn niður í eitt mark þegar fimm mín­út­ur voru eft­ir.

Loka­mín­út­urn­ar voru æsispenn­andi þar sem ís­lenska liðið gat í tvígang jafnað met­in, en allt kom fyr­ir ekki. Ísland vann bolt­ann þegar um tíu sek­únd­ur voru eft­ir en skotið var slakt og fór af varn­ar­manni um leið og leiktím­inn rann út. Loka­töl­ur 25:24 fyr­ir Svart­fjalla­land.

Vuko Boroz­an reynd­ist ís­lenska liðinu erfiður og skoraði tíu mörk en Al­ex­and­er Peters­son var marka­hæst­ur hjá ís­lenska liðinu með átta mörk

Tekið af mbl.is.