Ísland spilar í B-riðli sem leikinn er í Katowice á Evrópumótinu í Póllandi sem fer fram 15. til 31. janúar 2016. Með Íslandi í riðli eru Króatía, Hvíta-Rússland og Noregur.

Dregið var í riðla á föstudag en Ísland var í öðrum styrkleikaflokki.

Króatar koma úr fyrsta styrkleikaflokki en Ísland hefði getað mætt Dönum sem Guðmundur Guðmundsson þjálfar.

Hvít-Rússar koma úr þriðja styrkleikaflokki en þar hefði Ísland getað mætt lærisveinum Dags Sigurðssonar í Þýskalandi. Noregur kemur svo úr fjórða styrkleikaflokki.

Þrjú lið fara upp úr riðlinum og mæta þau liðum úr A-riðli (Frakkland, Pólland, Makedónía og Serbía) í milliriðli.