Dómaranefndir Íslands og Noregs hafa komist að samkomulagi um að skiptast á úrvalsdeildardómurum á þessu keppnistímabili og munu þeir Magnús Kári Jónsson og Ómar Ingi Sverrisson fara út á föstudaginn og dæma tvo leiki í Osló í úrvalsdeild og 1. deild karla nú um helgina.

Í næstu viku koma svo þeir Eskil Braseth og Leif André Sundet og dæma Stjarnan – Afturelding (ka) á fimmtudeginum og Fylkir – Valur (kv) á laugardeginum.

Þetta er liður í norrænu dómarasamstarfi Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og Færeyja sem staðið hefur undanfarin ár og hafa frændþjóðir okkar verið duglegar við þessi dómaraskipti.

Helgina 6.-8. mars fer síðan fram árlegur fundur norrænna dómaranefndarformanna sem að þessu sinni verður haldinn í Helsinki og á þann fund munu einnig mæta þeir Dragan Nachevski formaður dómaranefndar EHF og Bjarne Munk Jensen sem á sæti í dómaranefnd IHF. Þar verður staða norrænna dómara í alþjóðaumhverfinu og eftirfylgni breyttra áherslna í Quatar meðal annars rædd.