Þann 1. júlí 2016 verður leikreglum í handbolta breytt og tekur breytingin gildi frá þeim tíma. Ný leikreglubók á ensku verður gefin út í sumar og væntanlega íslensk síðar í haust. HSÍ hefur ekki tekið ákvörðun um hvort allar þessar reglur verða innleiddar í gegnum alla flokka en þær verða örugglega innleiddar í meistaraflokkum karla og kvenna. Námskeið á vegum HSÍ verða haldinn seint í sumar og haust og verða þau kynnt síðar.

Hér að neðan má sjá kynningu á breytingunum.

1. Markvörður sem leikmaður


Regla 4:1 málsgrein 3, Reglur 4:4-5-6-7


Ákvæði í reglu 4 um skiptingu markvarðar í stað leikmanns eru í fullu gildi en eftirfarandi viðbótum við reglurnar verður hrint í framkvæmd:

1) Sjö útileikmenn mega vera á vellinum á sama tíma. Þetta á við þegar útileikmaður skiptir við markvörð. Það er ekki nauðsynlegt (en leyfilegt) að vera í treyju í sama lit og treyja markvarðar.

2) Ef lið spilar með sjö útileikmönnum má enginn ganga í hlutverk markvarðar, þ.e. enginn leikmaður má fara inn í markteig og taka að sér stöðu markvarðar. Þegar bolti er í leik og einn af sjö útileikmönnum fer inn í markteig og kemur í veg fyrir upplagt markfæri þá skal dæma vítakast. Regla 8:7f gildir.

3) Við innáskiptingu gilda reglur 4:4-7 eins og áður (venjulegar reglur um skiptingu leikmanna). Í því tilfelli ávinnur markvörður sér öll réttindi samkvæmt reglum 5 (Markvörðurinn) og 6 (Markteigurinn).

4) Ef lið spilar með sjö útileikmönnum og þarf að framkvæma útkast verður einn af útileikmönnunum að yfirgefa völlinn og markvörður að koma í hans stað til að framkvæma útkastið. Dómarar ákveða hvort nauðsynlegt er að stöðva tíma þegar þetta á sér stað.

2. Slasaður leikmaður


Upplýsingar:


Í öllum keppnum undanfarin ár höfum við tekið eftir fleiri og fleiri aðstæðum þar sem leikmaður óskar eftir aðhlynningu á leikvelli þrátt fyrir að hún sé ekki nauðsynleg. Þetta brýtur flæðið í leiknum, sýnir óíþróttamannlega framkomu og lengir leikinn sem einnig hefur áhrif á sjónvarpsútsendingar. Þær aðgerðir sem eftirlitsmenn og dómarar á vegum IHF hafa gripið til fram að þessu hafa ekki dugað til að útrýma svona hegðun.




Leiðbeiningar til dómara varðandi reglu 4:11, málsgrein 1:



• Ef dómararnir eru algjörlega sannfærðir um að slasaður leikmaður þarfnist aðhlynningar á leikvelli þá munu þeir samstundis sýna bendingar númer 15 (Stöðvun leiktíma) og 16 (Leyfi fyrir tvo einstaklinga sem hafa rétt til þátttöku til að koma inn á leikvöll þegar tími er stöðvaður). Starfsmenn á skýrslu mega ekki hafna því að koma inn á leikvöll.

• Í öllum öðrum tilfellum munu dómararnir biðja leikmanninn um að standa upp og fá aðhlynningu utan vallar áður en þeir sýna bendingar númer 15 og 16.

• Þeir leikmenn og starfsmenn liða sem ekki fara eftir þessum reglum verður refsað fyrir óíþróttamannlega hegðun.




Málsgrein 1 er breytt sem hér segir:



• Þegar leikmaður hefur fengið aðhlynningu á vellinum skal hann yfirgefa leikvöllinn.

• Hann má ekki koma aftur inná leikvöllinn fyrr en liðið hans hefur lokið þriðju sókn. Eftirlitsmaður (Tæknilegur fulltrúi) ber ábyrgð á að þessu sé fylgt eftir.

• Sókn hefst þegar liðið nær valdi á boltanum og endar þegar mark er skorað eða þegar sóknarliðið tapar boltanum.

• Ef liðið er með boltann þegar leikmaðurinn þarfnast aðhlynningar þá er sú sókn talin fyrsta sóknin.

• Ef leikmaðurinn kemur inn á leikvöllinn áður en þriðju sókn lýkur skal refsa honum eins og um ólöglega skiptingu sé að ræða.

• Ofangreind ákvæði eiga ekki við ef aðhlynningin kemur í kjölfar brots sem refsað er fyrir með stighækkandi refsingu (áminning, brottvísun, útilokun).

• Þessi regla gildir ekki þegar markvörður fær bolta í höfuðið og nauðsynlegt er að veita honum aðhlynningu á leikvelli.



3. Leikleysa


Upplýsingar:


Margir þjálfarar og dómarasérfræðingar telja að þessari reglu sé vel lýst í leikreglunum en þeir vilja meina að dómararnir noti ekki sömu viðmið, sérstaklega eftir að merki um leikleysu er gefið, og biðja um breytingu þar sem minna huglæg og meira hlutlæg viðmið eru notuð.

Á sama tíma eru dómarar beðnir um að leyfa ekki aukna árásargirni af hálfu varnarinnar við þessar aðstæður.




Grundvallaratriði í reglum:



• Reglur 7:11 og 7:12 eru enn í gildi.

• Skýring 4, kaflar A, B, C og viðauki E eru óbreyttir.


Skýring 4, kafli D, verður sem hér segir:


• Eftir að dómararnir eru búnir að gefa merki um leikleysu þá mega þeir flauta leikleysu hvenær sem er ef þeir greina enginn merki þess að liðið reyni ekki að koma sér í stöðu til að skjóta á markið.

• Eftir að höndin er kominn upp þá hefur liðið sex sendingar áður en það skýtur að marki.

• Ef ekki er skotið á markið eftir 6 sendingar þá skal annar dómarinn flauta til merkis um leikleysu (aukakast fyrir hitt liðið).

• Ef sóknarliðið fær aukakast, þá hefur það ekki áhrif á fjölda sendinga

• Ef vörnin nær að verja skot, þá hefur það ekki áhrif á fjölda sendinga.

• Ef vörnin brýtur af sér eftir sex sendingar, en áður en dómararnir flauta leikleysu, leiðir það til aukakasts fyrir sóknarliðið. Í þessu tilfelli fær sóknarliðið eina sendingu í viðbót til að ljúka sóknaraðgerð auk möguleikans á að skjóta beint úr aukakastinu.

• Ákvörðun um fjölda sendinga er byggð á staðreyndum að mati dómara í samræmi við reglu 17:11, málsgrein 1 (Ákvarðanir dómara byggðar á staðreyndum eða mati þeirra eru endanlegar).

4. Síðasta mínútan


Upplýsingar:


Tilgangur þessarar reglubreytingar árið 2010 var að koma í veg fyrir eða minnka óíþróttamannlega hegðun eða alvarleg brot á síðustu mínútu leikja og einnig að gefa tapliðinu möguleika á að ná jafntefli eða sigra, þ.e. að halda spennu fram að síðustu sekúndu. Þrátt fyrir það hefur árangur orðið takmarkaður og ennþá sjást alvarleg brot sem verða til þess að lið vinnur leik og skiptir þá ekki máli þótt einn af leikmönnum liðsins fái leikbann í næsta leik.

Að auki þykir ein mínúta of langur tími fyrir þessa reglu (á einni mínútu er hægt að skora tvö eða fleiri mörk).




Samkomulag:



• Í staðinn fyrir síðustu mínútuna gilda sérákvæðin aðeins fyrir síðustu 30 sekúndurnar.

• 30 sekúndna reglan gildir við lok venjulegs leiktíma og við lok fyrri og seinni framlengingar.


Reglur 8:5, 8:6, 8:10c,d eru leiðréttar á eftirfarandi hátt:


1. Í stað „síðasta mínúta leiksins“ kemur „síðustu 30 sekúndur leiksins“

2. Fyrir brot sem fellur undir reglu 8:10c (bolti úr leik) verður refsað með útilokun án skriflegra skýrslu og það skal dæma vítakast á liðið.

3. Fyrir brot sem fellur undir reglu 8:10d (bolti í leik) og 8:5, verður refsað með útilokun án skriflegra skýrslu og það skal dæma vítakast á liðið.

4. Fyrir brot sem fellur undir reglu 8:10d (bolti í leik) og 8:6, verður refsað með útilokun með skriflegri skýrslu og það skal dæma vítakast á liðið.

5. Í tilvikum 3) og 4) skal eftirfarandi gilda:

5.1 Sóknarmaðurinn nær að henda boltanum og skora mark: Ekki skal dæma vítakast.

5.2 Sóknarmaðurinn sendir boltann, meðspilara mistekst að skora mark: Vítakast

5.3 Sóknarmaðurinn sendir boltann, meðspilari skorar mark: Ekki vítakast

5. Bláa spjaldið


Upplýsingar:


Stundum eru liðin ekki með það á hreinu hvor reglan á við þegar dómarar beita útilokun samkvæmt reglu 8:5 (enginn frekari eftirmáli) eða reglu 8:6 (skylt að skila skriflegri skýrslu) og áhorfendur og fjölmiðlar hafa ekki upplýsingar heldur.

Þessi breyting gefur meiri skýrleika í þessum tilvikum. Ef dómararnir sýna bláa spjaldið þá mun skrifleg skýrsla fylgja leikskýrslunni og aganefnd er ábyrg fyrir frekari aðgerðum.




Regla 16:8 (Reglur 8:6, 8:10), síðasta setning breytist eftirfarandi:



• Upplýsingar eru veittar með því að sýna bláa spjaldið (sem viðbót við rauða spjaldið).

• Dómararnir verða að vera með bláa spjaldið.

• Dómararnir munu fyrst sýna rauða spjaldið og síðan, eftir að hafa rætt stuttlega saman, bláa spjaldið.