Valur  og Fram mætast í síðari undanúrslitaleik Coca Cola bikars kvenna á morgun, miðvikudag, í Laugardalshöll. Flautað verður til leiks klukkan 20.30 og verður leikið til þrautar eins og í öðrum viðureignum úrslitahelgar Coca Cola bikarsins. Verði jafnt að leikslokum tekur við 2×5 mínútna framlenging og standi leikar þá enn jafnir ráðast úrslit leiksins í vítakeppni.

Valur og Fram hafa frá fyrstu tíð keppninnar verið í fremstu röð liða. Framarar eru nú í 27. sinn í undanúrslitum og Valur vann sér sæti í undanúrslitum í  25. skipti að þessu sinni en þetta er 45. keppnistímabil bikarkeppninnar í kvennaflokki. Liðin mættust í úrslitaleik fyrir ári og þá vann vann með þriggja marka mun, 24:21. Nú um stundir eru Fram og Valur í tveimur efstu sætum Olísdeildarinnar. Af þeim sökum má reikna með að það sjóði á keipum í Höllinni allt til loka á morgun.

Valur og Fram hafa marga hildi háð á síðustu vikum, mánuðum og árum. Síðast mættust liðin í Origohöll Valsara á laugardaginn þar sem Fram hafði betur, 28:24. Díana Dögg Magnúsdóttir, fyrirliði Vals, segir að þegar liðin þekkist jafn vel og raun ber vitni geti það ráðið úrslitum hvort þeirra kemur betur stemmt til leiks á miðvikudagskvöld í Laugardalshöll.

„Ef við komum skíthræddar til leiks þá er voðinn vís. Ef við mætum til þess að spila okkar leik eins gegn hverjum öðrum andstæðingi þá eigum við góða möguleika á að sigra. Spennustigið má hvorki vera of hátt eða of lágt,“ sagði Díana í samtali við HSÍ.

„Spennustigið er hærra í undanúrslitaleik í bikar en í deildarleik. Þess vegna tekur það leikmenn stundum nokkrar mínútur að komast í gang meðan strengirnir eru stilltir,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram. „Flestar okkar hafa áður tekið þátt í leikjum af þessu tagi. Við búum yfir góðri reynslu og ættum þessvegna að koma sterkar inn í leikinn frá fyrstu mínútu,“ sagði Steinunn ennfremur.

„Við vitum alveg hvað Valur ætlar að gera í leiknum og þær þekkja okkur út og inn. Af þeim sökum snýst þessi leikur fyrst og fremst um okkur sjálfar. Fyrstu mínútur leksins geta skipt miklu máli. Hvort liðið lætur til sín taka strax, hverjar eru frekari og ákveðnari auk margra smærri atriða sem skipta máli þegar dæmið verður gert upp.  Vonandi verður leikurinn skemmtilegur og spennandi fyrir handboltann. Því miður þá áttum við ekki góðan leik gegn Val í úrslitum bikarsins í fyrra þar sem við lentum mikið undir snemma leiks. Við höfum dregið lærdóm af þeirri viðureign,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram.

Nokkrar breytingar hafa orðið á Valsliðinu frá því að það vann Fram í úrslitum Coca Cola bikarsins fyrir ári. Díana segir að breytingarnar hafi tekist vel en vissulega sé lið Vals nú yngra en fyrir ári.  „Við náum vel saman auk þess sem margar af þeim yngri voru í hópnum fyrir ári og fengu tækifæri til þess að öðlast reynslu af stórum leikjum.  Þær hafa reynslu af því að koma inn í svona leiki. Ég er viss um að þær nýta reynslu sína auk þess að sækja í reynslubanka okkar sem höfum öðlast meiri reynslu. Við erum með flott lið þar sem hver leikmaður styður annan,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir, fyrirliði Vals.

Undanúrslitaleikur Vals og Fram hefst klukkan 20.30 í Laugadalshöll, annað kvöld,  miðvikudaginn 4. mars.

Leið Vals og Fram í undanúrslit:

Valur sat yfir í fyrstu umferð.

FH – Valur 19:34.

Stjarnan – Fram 18:28.

HK – Fram 29:35.

Hægt er að kaupa miða á leikina á 

www.tix.is

 en frítt er inn á úrslitaleiki yngri flokka.

#handbolti  #cocacolabikarinn