Coca Cola bikarinn | Valsmenn komnir í úrslit

Úrslitahelgi Coca Cola bikarsins hófst í dag og stendur handboltaveislan fram á sunnudag þar sem bæði meistaraflokkar og yngri flokkar fá sviðsljósið. Í kvöld var byrjað á undanúrslitum Coca Cola bikars karla en leikið er á Ásvöllum að þessu sinni.

Í fyrri leik undanúrslitanna áttust við FH og Valur. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Valsmenn náðu í fyrsta skiptið tveggja marka forustu í leiknum þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þegar dómarar kvöldsins blésu til hálfleiks var staðan 16 – 14 Valsmönnum í vil.

Seinni hálfleikur byrjaði svipað og fyrri hálfleikur og var jafnræði með liðinum en Valur var skrefi á undan, FH minnka[i muninn í eitt mark eftir fimm mínútna leik. Eftir það náðu Valsmenn yfirhöndum í leiknum og hægt og rólega sigu þeir framúr FH-ingum. Valsmenn unnu að loka nokkuð sannfærandi með tíu marka mun en leikurinn endaði 37 – 27.

Arnór Snær Óskarsson var markahæstur í liði Vals með 13 mörk en í liði FH var það Egill Magnússon með 5 mörk.

Góð mæting var á Ásvöllum í kvöld en um 1100 áhorfendur mættir til að styðja sitt lið.

Seinni leikur dagsins var að hefjast á Ásvöllum en þar eigast við KA og Selfoss, leikurinn er í beinni útsendingu á RÚV 2.