Stjarnan og ÍBV eigast við í úrslitaleik Coca Cola bikars karla 2020 í Laugardalshöll í dag klukkan 16. Bæði lið unnu andstæðinga sína í undanúrslitum með eins marks mun. Stjarnan lagði Aftureldingu, 22:21, og ÍBV hafði betur gegn Haukum, 27:26. Undanúrslitaleikirnir voru á fimmtudaginn.

Stjarnan leikur að þessu sinni í níunda sinn til úrslita í keppninni. Fjórum sinnum hefur Garðabæjarliðið hrósað sigri í keppninni, fyrst 1987, 26:22 á móti Fram, síðan 1989, 20:19 á móti FH, 2006, 24:20, á móti Haukum og 2007, 27:17, í leik við Fram. Síðast lék Stjarnan til úrslita fyrir sjö árum og tapaði þá fyrir ÍR.

ÍBV er í úrslitum Coca Cola bikarsins karla í fjórða skipti. Fyrst lék ÍBV til úrslita í bikarnum 1991 og vann Víking, 26:22, eða með sömu markatölu og Stjarnan vann sinn fyrsta úrslitaleik í bikarnum fjórum árum fyrr.  Síðan liðu 24 ár og ÍBV var á ný í úrslitum Coca Cola bikarsins fyrir fimm árum og lagði FH, 23:22, í hörkuleik í Laugardalshöll. Árið 2018 vann ÍBV sér keppnisrétt í úrslitum Coca Cola bikarsins á nýjan leik og mætti Fram í úrslitaleik og vann, 35:27.

„Það verður alltaf hörkuviðureign í úrslitum. Liðin sem komast í úrslit Coca Cola bikarsins verðskulda að vera þar hverju sinni og gefa þar af leiðandi ekkert eftir þegar á hólminn er komið. Við búum okkur bara undir annan mjög erfiðan leik,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, leikmaður ÍBV, í samtali við HSÍ, spurður út í úrslitaleik Coca Cola bikarsins.

„Það verður hörkustemning á laugardaginn, það eitt er víst. Við erum fullir eftirvæntingar að mæta Eyjamönnum og hlökkum til,“ sagði Leó Snær Pétursson, hornamaðurinn öflugi í liði Stjörnunnar, eftir sigurinn á Aftureldingu í undanúrslitum Coca Cola bikarsins í gærkvöldi.

Sem fyrr segir þá hefst úrslitaleikur ÍBV og Stjörnunnar í Coca Cola bikar karla klukkan 16 í dag, laugardag, í Laugardalshöll.

Allir leikir Coca Cola bikarsins eru beinni textalýsingu hjá HBStatz sem finna má inn á hsi.is undir liðnum í beinni.

Hægt er að kaupa miða á leikina á 

www.tix.is

.

#handbolti  #cocacolabikarinn