Coca Cola bikarinn | KA í úrslit eftir framlengingu

Í síðari undanúrslitaleik dagsins mættust KA og Selfoss, fjölmargir áhangendur liðanna voru mættir á Ásvelli og mynduðu frábæra stemmingu allt frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu.

Varnarleikurinn var í fyrirrúmi í fyrri hálfleik og lítið skorað. Jafnt var á öllum tölum og aldrei munaði meira en einu marki á liðunum, staðan 11-11 þegar flautað var til hálfleiks.

KA byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og komst 2 mörkum yfir en Selfoss jafnaði leikinn jafnharðan. Þá hófst góður kafli norðanmanna sem náðu mest 5 marka forystu þegar 7mínútur lifðu leiks. Selfyssingar voru þó hvergi nærri hættir og jöfnuðu leikinn á ný á lokamínútunni.

Framlengingin var ekki fyrir hjartveika en það voru KA menn sem skoruðu sigurmarkið á lokasekúndunum, lokatölur 28-27 fyrir KA.

Það verða því KA og Valur sem mætast í úrslitaleik CocaCola bikars karla á sunnudag kl. 16.00. Við hvetjum fólk til að fjölmenna á Ásvelli en leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á RÚV.