Aftur var allt undir í Laugardalshöll þegar Fram og ÍBV mættust i úrslitaleik í Coca-Cola bikar karla. Rafmögnuð stemmning hjá báðum liðum.

Jafnræði var með liðunum til að byrja en það voru þó Framarar sem tóku frumkvæðið og komust í 4-2 eftir 7 mínútna leik. Agnar Smári Jónsson byrjaði þó leikinn gríðarlega vel og hélt Eyjamönnum inn í leiknum með þremur mörkum liðsins af 5 skoruðum. Staðan eftir 10 mínútur 6-5 fyrir Fram. 

Leikurinn einkenndist af gríðarlegri baráttu og áhorfendur lifðu sig vel inn í leikinn, þeir sem áttu að sitja í neðri stúku Hallarinnar stóðu nánast allan tímann. Hvorugt liðið náði að slíta sig frá hinu, staðan eftir 20 mínútur 9-9. 

Eyjamenn náðu þó tveggja marka forystu þegar 5 mínútur lifðu af hálfleiknum, 11-13. Á þessum kafla hrökk Aron Rafn Eðvarðsson í gang sem og Agnar Smári Jónsson var óstöðvandi og skoraði sitt sjötta mark, 11-14. ÍBV keyrði hraðan upp og náðu 4 marka forystu þegar flautað var til hálfleiks, 12-16.

Í seinni hálfleik byrjuðu Framar af krafti og settu fyrstu tvö mörkin áður en Eyjamenn vöknuðu og juku munu aftur upp í fimm mörk 15-20 eftir 35 mínútur með frábæru marki frá Agnari Smára enn og aftur, hans 10 mark í leiknum. Á þessum tímapukti var vörn ÍBV orðin heit og erfitt fyrir Framara að brjóta hana á bak aftur með Aron Rafn flottan fyrir aftan varnarmúrinn.

Nokkuð jafnræði var á milli liðana eftir það og þau skiptust á að skora eða tapa boltanum. Eyjamenn náðu þar með að halda fimm marka forskoti sínu þegar að síðustu 15 mínútur leiksins runnu upp, 21-26. 

Framarar áttuðu sig á því að þeir voru að renna út á tíma og breyttu varnarleik sínum, tóku Sigurberg Sveinsson nánast úr umferð og mættu Agnari Smára einnig framarlega. Allt kom fyrir ekki og Eyjamenn gengu á lagið með Aron Rafn sjóðandi í markinu, 21-30 þegar 9 mínútur voru eftir.

Áhorfendur Eyjamanna kættust með hverri mínútunni sem leið þar sem það var orðið ljóst að þeirra lið var að sigla bikarnum heim til Eyja. Lokatölur 27-35 og ÍBV bikarmeistari karla. 

Við óskum Eyjamönnum hjartanlega til hamingju.

 

Tölfræði HB Statz:


Skotnýting: 49,1%  ÍBV 68,6%.


Hraðaupphlaupsmörk: Fram 4  ÍBV 2.


Lögleg varnarstopp: Fram 19  ÍBV 24.


Varin skot í vörn: Fram 2  ÍBV 4.


Stolnir boltar: Fram 5  ÍBV 4.


Brottvísanir: Fram 4  ÍBV 3.

 


Markaskorar Fram:

Svanur Páll Vilhjálmsson 6, Arnar Birkir Hálfdánsson 5, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 4, Matthías Daðason 3, Þorgrímur Smári Ólafsson 2, Sigurður Örn Þorsteinsson 2, Andri Þór Helgason 2, Davíð Stefán Reynisson 1, Valdimar Sigurðsson 1, Bjartur Guðmundsson 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 5 skot. 18,5% markvarsla.  

Daníel Þór Guðmundsson varði 4 skot. 23,5% markvarsla.

  

Markaskorar ÍBV:

Agnar Smári Jónsson 12, Theodór Sigurbjörnsson 8, Sigurbergur Sveinsson 6, Kári Kristján Kristjánsson 4, Andri Heimir Friðriksson 2, Róbert Aron Hostert 1, Friðrik Hólm Jónsson 1, Grétar Þór Eyþórsson 1.

Aron Rafn Eiðsson varði 17 skot. 41,5% markvarsla.