Coca Cola bikarinn | Haukar eru bikarmeistarar í 4. ka. yngri

Haukar eru bikarmeistarar í 4. ka. yngri eftir dramatískan sigur á KA í frábærum handboltaleik á Ásvöllum fyrr í dag.

Það voru Haukar sem byrjuðu betur og náðu mest 5 marka forystu í fyrri hálfleik en norðanmenn voru hvergi nærri hættir og jöfnuðu leikinn rétt áður en flautað var til hálfleiks. Í síðari hálfleik voru það KA menn sem höfðu tögl og haldir allt þar til nokkrar mínútur lifðu leiks, þá kom frábær kafli Haukamanna sem tryggðu sér að lokum sigur með flautumarki á lokasekúndunni, 31-30 sigur Hauka í mögnuðum leik.

Markahæstur Haukamanna var Kristófer Breki Björgvinsson með 10 mörk en þeir Sigurður Bjarmi Árnason og Daníel Máni Sigurgeirsson skoruðu 7 mörk hvor. Hjá KA átti Aron Daði Stefánsson stórleik og skoraði 14 mörk en Leó Friðriksson skoraði 8.

Kristófer Breki Björgvinsson var mikilvægasti maður leiksins.

Úrslitaleikur 4. flokks kvenna hefst kl. 14:00 og þar eigast við KA/Þór og ÍBV. Leiknum er streymt á öllum miðlum HSÍ.