Leikmenn ÍBV og Hauka ríða á vaðið í fyrri viðureign undanúrslita Coca Cola bikars karla í Laugardalshöll á morgun, fimmtudaginn 5. mars. Rimma liðanna hefst klukkan 18 og má eins ævinlega þegar lið þessara félaga mætast búast við hörkuleik. Lið félaganna hafa á síðustu árum marga hildi háð, jafnt í Coca Cola bikarnum og í Olísdeildinni. Síðast leiddu ÍBV og Haukar saman hesta sína í Vestmannaeyjum 16. febrúar í leik sem Eyjamenn unnu, 36:28. Aðeins munar einu stigi á liðunum þegar 19 umferðir eru að baki í Olísdeildinni, Haukum í vil.

„Þetta eru skemmtilegustu leikirnir þar sem allt er undir. Það er alls ekkert verra að andstæðingurinn sé ÍBV, lið sem hefur háð margar rimmur við Hauka á síðustu árum,“ sagði hinn þrautreyndi leikmaður Hauka, Ásgeir Örn Hallgrímsson, í samtali við HSÍ.

„Leikurinn fer fram á svæði sem 20 metra á breidd og 40 metra á lengd og það eru 14 leikmenn inni á vellinum í einu. Ég hef ekki lagt í vana minn að velta fyrir hvað er á seyði annarstaðar en á þessum bletti þegar leikurinn stendur yfir,“ sagði Ásgeir Örn spurður hvort stemningin og keppnin á meðal stuðningsmanna liðanna utan vallarins muni hafa áhrif á leikinn. Reiknað er með að stuðningsmenn beggja liða fjölmenni í Laugardalshöll og myndi góða stemningu eins þeirra er von og vísa.

Margir eru minnugir skemmtilegra undanúrslitaleikja ÍBV og Hauka í Coca Cola bikarnum árin 2015 og 2018 þegar úrslit réðust ekki fyrr en í blálokin.

„Leikurinn snýst um að verða stór eða að fara heim,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson, hinn reyndi línumaður ÍBV og fyrirliði liðsins við HSÍ á kynningarfundi fyrir Coca Cola bikarhelgina. „Þetta er alltaf hrikalega skemmtilegur tími á keppnistímabilinu,“ sagði Kári Kristján ennfremur og bætir við að gríðarlegur áhugi sé fyrir undanúrslitaleiknum á meðal Eyjamanna.  „Fyrir vikið er ég ógeðlega spenntur fyrir leiknum á fimmtudaginn.  Raðirnar eru þettar hjá okkur Eyjamönnum og þær eru alltaf þéttari en venjulega í bardögum. Menn eru bara hrikalega vel stemmdir,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson sem veit ekki betur en ÍBV verði með sína vöskustu sveit í leiknum, jafnt utan vallar sem innan.

Haukum hefur ekki vegnað vel í síðustu deildarleikjum í aðdraganda úrslitahelgar Coca Cola bikarsins. Ásgeir Örn segir að undanfarnir dagar hafi verið vel nýttir til þess að koma Haukaliðinu inn á sporið á nýjan leik. „Ég veit að það hentar okkur vel í þessari stöðu að fara í leik upp á allt og ekkert. Ég hef tröllatrú á að leikurinn eigi eftir að enda vel fyrir okkur. Tíminn hefur nýst okkur vel til að laga það sem betur hefur mátt fara og búa okkur undir átökin á fimmtudaginn gegn ÍBV. Það er tilhlökkun í okkur fyrir þessu verkefni,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, leikmaður Hauka.

Stuðningsmenn ÍBV og Hauka hittast fyrir leik og standa bæði félög fyrir hópferðum með sitt fólk á undanúrslitaleik Coca Cola bikarsins í Laugardalshöll á morgun. Nánari upplýsingar er að fá á heimasíðum félaganna og á samfélagsmiðla síðum þeirra.

Leið ÍBV og Hauka í undanúrslit Coca Cola bikarsins:

Bæði lið sátu yfir í fyrstu umferð.

Þróttur – ÍBV 18:33

ÍBV – FH 24:22

Haukar – Valur 30:26

Haukar – Fjölnir 26:21

ÍBV komst fyrst í undanúrslit 1990 og tapaði fyrir Víkingi, 29:26. Árið eftir fór ÍBV aftur í undanúrslit og vann þá FH, 29:25. Sigrinum í undanúrslitum fylgdi ÍBV eftir í úrslitaleiknum og gegn Víkingi og vann með fjögurra marka mun, 26:22, og hefndi þar með fyrir tapið í undanúrslitum árið áður.

Þór Vestmannaeyjum, annar forveri ÍBV ef svo má segja, komst í undanúrslit árið 1983 en tapaði þá fyrir Víkingi, 26:20.

Alls hefur ÍBV komist níu sinnum í undanúrslit,  þar af þrisvar alla leið í úrslit og unnið bikarinn í öll þrjú skiptin.

Haukar hafa nítján sinnum átt sæti í undanúrslitum, þar af átta sinnum hefur lið félagsins farið alla leið í úrslitaleikinn. Sjö af átta úrslitaleikjum sínum hafa Haukar unnið.

Haukar komust í fyrsta sinn í undanúrslit bikarkeppninnar 1980. Þeir unnu þá Val í undanúrslitaleik, 23:21, og mættu KR í úrslitum. Fyrri úrslitaleiknum lauk með jafntefli, 18:18. Í þá daga var úrslitaleikurinn ekki framlengdur eins og nú heldur heldur var annar leikur háður viku síðar. Haukar höfðu þá betur, 22:20, í hörkuleik og hrósuðu sigri í bikarkeppninni í fyrsta sinn.

Hægt er að kaupa miða á leikina í Coca Cola bikarnum á 

www.tix.is

 en frítt er inn á úrslitaleiki yngri flokkana á föstudag og á sunnudag.

#handbolti  #cocacolabikarinn