Coca Cola bikarinn | Framkonur í úrslit

Úrslitahelgi Coca Cola bikarsins hélt áfram í kvöld með undanúrslitum kvenna.

Í fyrri leik kvöldsins léku núverandi Íslands- og bikarmeistarar í KA/Þór á móti Framkonum. Eftir jafnar upphafsmínútur tók Fram öll völd á vellinum og náði 6 marka forystu áður en flautað var til hálfleiks.

Framkonur héldu áfram að byggja ofan á forskotið í síðari hálfleik og unnu að lokum sannfærandi 8 marka sigur, 23-31.

Markahæst í liði Fram var Emma Olsson með 7 mörk en Perla Ruth Albersdóttir, Karen Knútsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir skoruðu 6 mörk hver. Martha Hermannsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir skoruðu 5 mörk hvor fyrir KA/Þór. Ekki má gleyma hlut Hafdísar Renötudóttur í marki Fram sem varði 15 skot í leiknum.