Fram er Coca Cola bikarmeistari í handknattleik kvenna 2020 eftir sigur á KA/Þór, 31:18, í úrslitaleik í Laugardalshöll í dag. Þetta er í sextánda sinn sem Fram fagnar sigri í keppninni frá því að Safamýrarliðið vann keppnina fyrst árið 1976.

Leiðir liðanna skildu fljótlega í leiknum. Eftir stundarfjórðung var Fram-liðið komið með fimm marka forskot, 7:2, og munurinn jókst  jafnt og þétt eftir því sem lengra kom fram í hálfleikinn. Afar sterk vörn Framara gerði sóknarmönnum KA/Þórs erfitt fyrir. Í hálfleik var munurinn 13 mörk, 17:4.

Eftir tíu mínútur í síðar hálfleik var staðan orðin 24:8. Leikmenn KA/Þórs lögðu aldrei árar í bát þótt staðan væri slæm en fyrir liðið þá var andstæðingurinn  bara alltof sterkur að þessu sinni.

Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, var valin besti leikmaður úrslitaleiksins.

„Alltaf er jafn gaman að vinna og ekki skemmdi fyrir að það var full stúkan okkar megin og frábær stemning,“ sagði Hildur Þorgeirsdóttir, nýkrýndur Coca Cola bikarmeistari í samtali við HSÍ.

„Við hittum á tvo mjög góða leiki í bikarvikunni. Fyrst gegn Val og nú á móti KA/Þór og erum mjög sáttar. Nú er það okkar að byggja ofan á árangurinn fyrir atökin sem eru framundan á Íslandsmótinu,“ sagði Hildur ennfremur og bætti við.

„Við bjuggum okkur vel undir leikinn því þrátt fyrir allt þá eru úrslitaleikir í bikar alltaf annað en deildarleikur. Spennustigið er hærra auk þess sem margir leikmenn KA/Þórs eru að taka þátt í sínum fyrsta bikarúrslitaleik á meðan margar okkar hafa gengið í gegnum svona úrslitaleiki margoft.

Fyrst og fremst þá einbeitum við okkur að sjálfum okkur og að byggja smátt og smátt ofan á okkar leik jafnt og þett,“ sagði Hildur Þorgeirsdóttir, Coca Cola bikarmeistari með Fram.

 

Mörk KA/Þórs: Rakel Sara Elvarsdóttir 5, Martha Hermannsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Svala Björk Svavarsdóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 1, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 7 (þaraf 1 aftur til mótherja).

Mörk Fram: Steinunn Björnsdóttir 9, Perla Ruth Albertsdóttir 6, Þórey Rósa Stefánsdóttir 5, Ragnheiður Júlíusdóttir 4, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 2 Unnur Ómarsdóttir 2, Hafdís Renötudóttir 1, Elva Þóra Arnardóttir 1, Lena Margrét Vilhjálmsdóttir 1.

Varin skot: Hafdís Renötudóttir 9/1, Katrín Ósk Magnúsdóttir 10 (þaraf 5 til mótherja).

Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæmdu leikinn.

#cocacolabikarinn #handbolti