Seinni undanúrslitaleikur Coca-Cola bikars karla gaf þeim fyrri ekkert eftir. Selfoss og Fram áttust við í hreint út sagt frábærum leik.

Stemmningin var rafmögnuð þegar flautað var til leiks. Selfyssingar hófu leikinn betur án þess þó að ná að slíta sig frá þeim bláu. Það var í raun allt í járnum eða þar til tæpar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar að Selfoss komst í þriggja marka forystu. Sá munur hélst og hálfleikstölur 15-12.

Framarar mættu einbeittir til leiks í síðari hálfleik og reyndu hvað þeir gátu að missa Selfyssinga ekki of langt fram úr sér. Það gekk eftir og þegar að hálfleikurinn var hálfnaður var staðan 18-18 og spennan í hámarki, að maður hélt.

Það sem eftir lifði leiks skiptust liðin á að skora og leikurinn var í jafnvægi eða allt þar til Viktor Gísli Hallgrímsson setti í lás og lagði grunninn að því að Fram komst yfir 19-20 þegar tæpar 10 mínútur voru eftir af leiknum. Selfyssingar vöknuðu af værum blundi og á 57. mínútu minnkuðu þeir muninn í eitt mark 21-22, gríðarleg spenna. Það var svo Teitur Örn Einarsson sem jafnaði úr víti þegar tæp ein mínúta var eftir, 23-23. Eftir ótrúlega lokasekúndur og mikla dramatík varð niðurstaðan jafntefli og grípa þurfti til framlengingar.

Það var hásepnna lífshætta í framlengingunni þar sem liðin skildu jöfn eftir fyrri hluta hennar, 25-25. Í síðari hálfelik byrjuðu Framarar með boltann og skoraði Valdimar Sigurðsson fyrsta markið, 25-26. Teitur Örn jafnaði strax metin og liðin, eftir ótrúlega baráttu, skildu aftur jöfn 27-27. Niðurstaðan vítakastkeppni.

Það er skemmst frá því að segja að leikmenn beggja liða nýttu vítin sín vel en því miður þarf eitt lið að gefa eftir og annað að  standa uppi sem sigurvegari og að þessu sinni er það Fram eftir að Teitur Örn Einarsson skaut í stöng í víti tvö fyrir Selfoss.

Ótrúlegur endir á ótrúlegum leik.

 

Úrslitaleikur Fram og ÍBV verður leikinn á morgun, laugardag, kl. 16.00.

Miðasala á
tix.is.

 

Tölfræði frá HB Statz:

Skotnýting: 
 Selfoss 50,8%  Fram 57,1%

Hraðaupphlaupsmörk: Selfoss 1  Fram 3

Lögleg varnarstopp: Selfoss 26  Fram 41

Brottvísanir: Selfoss 3 Fram 3

Varin skot í vörn: Selfoss 1  Fram 3

 

Markaskorarar Selfoss:

Teitur Örn Einarsson 8, Atli Ævar Ingólfsson 6, Elvar Örn Jónsson 6,
Árni Steinn Steinþórsson 5, Einar Sverrisson 2 , Richard Sæþór Sigurðsson 1, Sverrir Pálsson 1. 

Sölvi Ólafsson varði 16 skot. 39% markvarsla.

 

Markaskorarar Fram:

Valdimar Sigurðsson 7, Matthías Daðason 8, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 7, Arnar Birkir Hálfdánsson 4, Andri Þór Helgason 3,
 Þorgrímur Smári Ólafsson 2,

Svanur Páll Vilhjálmsson 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 17 skot. 37% markvarsla.