Það var mikið undir í Laugardalshöll þegar flautað var til leiks í úrslitaleik kvenna á milli Fram og Hauka í Coca-Cola bikarnum. Spennustigið var hátt og það tók liðin um 3 mínútur að skora fyrsta mark leiksins en það gerðu Framkonur.

Haukar áttu erfitt með að finna leið í gegnum varnarmúr Framara og skoruðu sitt fyrsta mark ekki fyrr en 8 mínútur voru liðnar af leiknum, staðan 2-1 Fram í vil.

Þær bláklæddu juku forskot sitt í 5-1 og Elías Már Halldórsson þjálfari Hauka tók leikhlé. Haukar komust lítið áfram gegn sterkri vörn Fram þar sem Guðrún Ósk Maríasdóttir varði nánast allt sem komst í gegnum múrinn.

Guðrún Erla Bjarnadóttir braut þó ísinn og Elín Jóna Þorsteinsdóttir tók nokkra bolta í röð í markinu og munurinn skyndilega orðin aðeins þrjú mörk. En Framarar hleyptu Hafnfirðingunum ekki of nálægt sér, bættu aftur í og náðu góðri forystu inn í hálfleikinn, 14-6.

Seinni hálfleikurinn bauð upp á meira af því sama, Framkonur voru áfram gríðarlega sterkar í vörninni, Guðrún Ósk átti stórleik og liðið keyrði hraðaupphlaupin grimmt í bakið á Hafnfirðingum sem áttu fá svör, lokatölur 30 – 16.

Bikarinn fer því í Safamýrina þetta árið og óskum við Frömurum hjartanlega til hamingju.

 

Tölfræði HB Statz:


Skotnýting: Fram 66,7%  Haukar 30,8%.


Hraðaupphlaupsmörk: Fram 8  Haukar 1.


Lögleg varnarstopp: Fram 14  Haukar 15.


Varin skot í vörn: Fram 7  Haukar 1.


Stolnir boltar: Fram 7  Haukar 7.


Brottvísanir: Fram 1  Haukar 1.

 


Markaskorar Fram:

Þórey Rósa Stefánsdóttir 7, Karen Knútsdóttir 5, Elísabet Gunnarsdóttir 5, Ragnheiður Júlíusdóttir 4, Steinunn Björnsdóttir 4, Hulda Dagsdóttir 2, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 2, Elva Þóra Árnadóttir 1.

Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 19 skot. 63,3% markvarsla.

 


Markaskorar Haukar:

Berta Rut Harðardóttir 9, Maria Ines 3, Guðrún Erla Bjarnadóttir 1, Karen Helga Díönudóttir 1, Þórhildur Braga Þórðardóttir 1, Vilborg Pétursdóttir 1.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 10 skot. 32,2% markvarsla.