Coca Cola bikar | Selfoss meistari 3. flokki karla

Selfoss hrósuðu sigri í Coca Cola bikarnum í  3. flokki karla eftir hörku leik gegn Fram í úrslitum á Ásvöllum í dag, lokatölur 32 – 26. Jafnt var í hálfleik 14 – 14.

Liðin buðu upp á frábæran handbolta og þeir fjölmörgu áhorfendur sem mættu að styðja sitt lið fengu spennandi leik frá fyrstu mínútu. Í fyrri hálfleik skiptust liðin á að leiða og mest náðu liðin tveggja marka forskoti.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og á sá fyrri og jafnræði með liðunum fyrstu 15 mínúturnar. Selfoss náði þá 3 marka forskoti en Fram vann sig inn í leikinn og náði að minnka muninn niður í 1 mark. Síðustu 5 mínúturnar náði frábært lið Selfoss að tryggja sigur í kvöld og er liðið því Coca Cola meistari 3. flokks karla 2022.

Maður leiksins var Jón Þórarinn Þorsteinsson, markvörður Selfoss en hann varði 22 skot í leiknum.

Til hamingju Selfoss!

Úrslitaleikur 3. flokks kvenna hefst 20:15 og þar mætast Fram og Haukar og er leikurinn í beinni útsendingu á RÚV 2.