Bakhjarlar HSÍ | Samstarf við Minigarðinn

HSÍ og Minigarðurinn hafa gert með sér samstarfssamning og mun Minigarðurinn koma inn í ört stækkandi hóp bakhjarla HSÍ.

Minigarðurinn er matgarður með fjölbeytta valkosti í mat en í senn 18 holu innanhúss minigolfvöllur, pílukaststaður og sportbar. Í Minigarðinum er gott að þjappa hópinn saman eins og landslið Íslands í öllum flokkum. Einnig mun Minigarðurinn meðal annars sjá um veitingar á heimaleikjum Íslands en veisluþjónusta Minigarðsins er tilvalin í slíkt. 

Stórverkefni eru framundan hjá HSÍ á næsta ári. A landslið karla leika á Ásvöllum í undankeppni EM 2024 gegn Ísrael 12. október nk og gegn Eistlandi þar ytra 15. október.  A landslið kvenna spilar hér heima tvo leiki í forkeppni HM  gegn Ísrael 5. og 6. nóvember. 

Stuðningur frá íslensku atvinnulífi er sambandinu ómetanlegur nú sem áður. Báðir aðilar lýsa yfir ánægju sinni með þennan samning og vonast til þess að eiga gott samstarf  í framtíðinni.

„Handbolti er og hefur alltaf verið þjóðaríþrótt okkar íslendinga. Það eru fáar íþróttir þar sem við sem þjóð erum að keppa á meðal þeirra bestu. Það er okkur sannur heiður að styðja með okkar mætti við bakið á starf HSÍ“, segir Sigmar Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Minigarðsins. 

„Við í handknattleikshreyfingunni gleðjumst yfir því að Minigarðurinn hafi valið að vinna með okkur. Öflugt starf HSÍ byggir á góðum tengslum við atvinnulífið, og það að fyrirtæki eins og Minigarðurinn komi til liðs við okkur hjá HSÍ staðfestir það,” segir Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ.