Bakhjarlar HSÍ | Rapyd og HSÍ hefja samstarf 

Handknattleikssamband Íslands og Rapyd hafa undirritað samkomulag þess efnis að Rapyd verði einn af bakhjörlum HSÍ. Frá og með HM í Svíþjóð og Póllandi mun Rapyd því hafa auglýsingu sína framan á treyjum allra landsliða Íslands í handbolta. 

Stór verkefni eru framundan hjá HSÍ. A-landslið karla spilar sinn fyrsta leik á HM 2023 á fimmtudaginn, A-landslið kvenna leikur vináttulandsleiki gegn Noregi hér heima í mars og í apríl leika stelpurnar okkar umspilsleiki gegn Ungverjalandi um sæti á HM í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. 

Yngri landslið Íslands í handbolta verða einnig á faraldsfæti á árinu. U-21 karla fer á HM í Þýskalandi og Grikklandi, U-19 karla á HM í Króatíu, U-17 karla á Opna Evrópumótið í Svíþjóð og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) í Slóveníu, U-19 kvenna á EM í Rúmeníu og U-17 kvenna á EM í N-Makedóníu.

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir HSÍ að fá Rapyd inn í öfluga sveit bakhjarla sem styðja við starf handknattleikshreyfingarinnar. Það er von okkar hjá HSÍ að samstarfið við Rapyd verði farsælt og ánægjulegt“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.

„Við hjá Rapyd tökum stolt við keflinu af Valitor en félagið var bakhjarl handboltans á Íslandi í áratugi.” Segir Garðar Stefánsson, forstjóri Rapyd Europe.