Bakhjarlar HSÍ | 1xINTERNET nýr bakhjarl íslenska landsliðsins í handbolta. 

1xINTERNET hefur bæst í hóp bakhjarla Handknattleikssambands Íslands árið 2024. Frá og með EM í Þýskalandi mun 1xINTERNET hafa auglýsingu sína á treyjum karla og kvenna landsliða Íslands í handbolta. 

1xINTERNET, sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir fyrirtæki, hefur sterka tengingu við bæði Ísland og Þýskaland en fyrirtækið er með skrifstofur í báðum löndum og vinnur jöfnum höndum fyrir íslenska og þýska viðskiptavini.

“Okkur fannst spennandi að taka þátt í að styðja við landsliðið á þennan hátt, við höfum ekki verið í mikilli markaðsvinnu á Íslandi þrátt fyrir að vinna fyrir mörg frábær íslensk fyrirtæki. 1xINTERNET er með skrifstofur á Íslandi, Þýskalandi og Spáni þar sem handbolti er fyrirferðamikil íþrótt, og svo spilar náttúrulega inní mikill áhugi á handbolta innan veggja 1xINTERNET. Ég var sjálf í handbolta á mínum yngri árum og ólst upp á handboltavellinum. Pabbi minn, Ólafur Jónsson, og bróðir, Jason Ólafsson, spiluðu báðir fyrir landslið Íslands í handbolta,” segir Baddý Sonja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi 1xINTERNET.

Vefsíða tileinkuð landsliðinu

Í tilefni af EM setti 1xINTERNET upp einfalda vefsíðu www.hsi.1xinternet.is  tileinkaða landsliðinu. Þar má finna létt viðtöl við leikmenn liðsins, ásamt svæði þar sem hægt er að senda strákunum baráttukveðjur og sjá yfirlit yfir umfjöllun frá samfélagsmiðlum á https://www.hsi.1xinternet.is/fanzone  með myllumerkinu #strakarnirokkar 

Kjartan Vídó, markaðsstjóri HSÍ, segist ánægður með að fá 1xINTERNET í hóp bakhjarla HSÍ: “Það er alltaf gaman að fá inn nýja samstarfsaðila, við hlökkum til samstarfsins með 1xINTERNET sem fer vel af stað með nýja vefsvæðinu sem sýnir leikmenn liðsins kannski í öðru ljósi en vanalega er gert.”

Hrafnhildur Ingólfsdóttir og Hjördís Auðunsdóttir frá 1xINTERNET og Kjartan Vídó Ólafsson, markaðsstjóri HSÍ handsöluðu samninginn milli 1xINTERNET og HSÍ á æfingu hjá A landsliði karla.