Ársþing HSÍ | Góð mæting í Laugardalshöll

66 . ársþing Handknattleikssambands Íslands fór fram í Laugardalshöll síðastliðin sunnudag. 84 sátu þingið, þar af 62 þingfulltrúar frá aðildarfélögunum, Helga Þórðardóttir var kjörin þingforseti.

Í upphafi þings minntist þingforseti látinna félaga og risu þingfulltrúar úr sætum til að heiðra  minningu þeirra.

Endurkjörin til næstu tveggja ára í stjórn sambandsins voru þau Páll Þórólfsson (landsliðsnefnd karla), Inga Lilja Lárusdóttir (fræðslu- og útbreiðslunefnd) og Davíð Lúther Sigurðsson var kjörinn í fyrsta sinn í stjórn HSÍ en hann verður formaður markaðsnefndar. Fyrir í stjórn voru þau Guðmundur B Ólafsson (formaður), Reynir Stefánsson (varaformaður), Arnar Þorkelsson (gjaldkeri), Guðríður Guðjónsdóttir (landsliðsnefnd kvenna) og Kristján Gaukur Kristjánsson (dómaranefnd). Þá munu áfram sitja í varastjórn þau Alfreð Örn Finnsson, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Ragnar Lárus Kristjánsson.

Velta HSÍ á árinu var tæpar 411 milljónir kr. og hagnaður sambandsins var rúmar 42 milljónir.

Fyrir þinginu lá tillaga um að ein deild væri spiluð kvennamegin, sú tillaga var felld. Einnig lá fyrir tillaga um breyingar á umspili um laust sæti í Olísdeild karla sem einnig var felld.

Skýrslu ársþingsins má finna hér.