Í dag fór fram 59. Ársþing HSÍ.

Fáar breytingar voru gerðar á lögum sambandsins á ársþinginu. Helstu lagabreytingar eru þær að fyrirkomulagi næsta tímabils fyrir efstu deild kvenna var breytt á þann veg að ef 14 lið skrá sig til leiks sé spilað í einni deild, en ekki tveimur eins og samþykkt var á síðasta ársþingi.

Þá var samþykkt tillaga um að leyfa félögum að efna til svokallaðra venslaliða. Venslalið mega ekki spila í sömu deild en þau geta haft rýmri félagaskiptareglur sín á milli. Von ársþingsins er sú að þetta muni fjölga liðum í 1. deild karla og leiði til þess að 12 lið spili í efstu deild tímabilið 2017/2018.

Velta sambandsins á árinu var 196.242.411.- Hagnaður ársins er 911.205.- . Eigið fé sambandsins er jákvætt um 7.403.926.- 

Kosið var um formann HSÍ og var Guðmundur B. Ólafsson endurkjörinn formaður.

Kosið var um 4 stjórnarmenn til tveggja ára en það eru: Arnar Þorkelsson, Guðjón L. Sigurðsson, Guðríður Guðjónsson og Jakob Sigurðsson.

Kosið var um 3 varamenn til eins árs en það voru þau Gunnar Gíslason, Hannes Karlsson og Magnús Karl Daníelsson.

Þau Einar Einarsson, Gunnar Erlingsson og Ragnheiður Traustadóttir létu af störfum úr stjórn HSÍ og vill sambandið sérstaklega þakka þeim óeigingjarnt starf á liðnum árum.