Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson hafa fengið það verkefni að dæma úrslitaleik EHF-keppninnar sem fram fer í Max Schmeling-höllinni í Berlín þann 17.maí. 

EHF-keppnin verður til lykta leidd helgina 16. og 17.maí næstkomandi. Laugardaginn sextánda mætast Gorenje Valenje frá Slóveníu og þýska liðið Füchse Berlin annars vegar og Skjern frá Danmörku og Hamburg frá Þýskalandi hins vegar í undanúrslitum. Tapliðin í þessum viðureignum leika um þriðja sætið á sunnudeginum sautjánda og sigurliðin leika til úrslita þennan sama dag, undir styrkri handleiðslu og stjórn Antons og Jónasar.