Úrskurður aganefndar 23. október 2019

Eftirtalin mál lágu fyrir og voru tekin til úrskurðar:

1.
Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna ummæla sem Kristinn Guðmundsson, þjálfari ÍBV viðhafði um dómgæslu og dómaramál í viðtölum við fjölmiðla (visir.is og mbl.is) eftir að leik ÍBV og Aftureldingar í mfl. karla 15. október sl. lauk. Í samræmi við 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var ÍBV gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð. Greinargerð hefur borist frá ÍBV. Samkvæmt 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til aganefndar atvikum sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega. Aganefnd hefur farið yfir umrædd ummæli. Aganefnd tekur undir að þjálfarinn hefði í viðtalinu mátt viðhafa varfærnislegra orðalag og að téð ummæli séu honum ekki til framdráttar. Með vísan til fyrri fordæma er það hins vegar mat nefndarinnar að gera verður í þessum efnum, greinarmun á, annars vegar ummælum sem fela í sér almenna gagnrýni á störf dómara og hins vegar alvarlegum aðdróttunum í garð einstakra aðila, ásakanir um óheiðarleika eða aðra viðlíka háttsemi. Telur nefndin að umrædd ummæli feli fyrst og fremst í sér gagnrýni þjálfarans sem byggja á upplifun hans og hann getur að einhverju marki fært rök fyrir. Innan tjáningarfrelsis þjálfarans rúmast, að mati nefndarinnar, réttur hans til að segja, innan skynsamlegra marka, skoðun sína á frammistöðu dómara, leikmanna og skipulagi HSÍ. Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli ekki í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Að mati nefndarinnar er ekki tilefni til að láta aðila sæta viðurlögum í máli þessu en áréttar þó mikilvægi þess að þjálfarar líkt og leikmenn liða sýni í orðum og í verki þá almennu háttvísi og framkomu sem samboðin er handknattleiksíþróttinni. 

2.
Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna ummæla sem Kristján Örn Kristjánsson, leikmaður ÍBV viðhafði um dómgæslu og dómaramál í viðtölum við fjölmiðla (ruv.is) eftir að leik ÍBV og Aftureldingar í mfl. karla 15. október sl. lauk. Í samræmi við 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var ÍBV gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð. Greinargerð hefur borist frá ÍBV. Samkvæmt 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til aganefndar atvikum sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega. Aganefnd hefur farið yfir umrædd ummæli og telur þau með öllu óskiljanleg bæði samkvæmt orðanna hljóðan og almennri málvenju. Verða þau því ein og sér ekki talin nægjanleg til að aðila verði gert að sæta viðurlögum í máli þessu. Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli ekki í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Að mati nefndarinnar er ekki tilefni til frekari athafna í málinu. 

3.
Ólafur Guðni Eiríksson leikmaður Víkings hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Þróttar og Víkings í mfl. ka. þann 15.10. 2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar. 

4.
Brynjar Hólm Grétarsson leikmaður Þórs Ak. hlaut útilokun með skýrsla vegna grófs leikbrots í leik Þórs Ak. og Fjölnis U í mfl. ka. þann 18.10. 2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a) og c). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar. 

Úrskurðurinn tekur gildi á hádegi fimmtudaginn 24. október 2019.

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Arnar Þór Sæþórsson.