Aganefnd HSÍ | Úrskurður 23.04. ’22

Úrskurður aganefndar 23. apríl 2022

Eftirtalin mál lágu fyrir og var tekið til úrskurðar:

  1. Stefán Rafn Sigurmannsson leikmaður Hauka hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Hauka og KA í úrslitakeppni Olís deildar karla þann 22.04.2022.  Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 b). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.
  2. Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ fyrir hönd stjórnar vegna ummæla sem Björgvin Páll Gústavsson, leikmaður Vals viðhafði um framkomu leikmanna Fram í viðtölum við fjölmiðla (mbl.is) eftir að leik Vals og Fram í úrslitakeppni Olís deildar karla 21. apríl sl. lauk. Í samræmi við 6. kafla reglugerðar HSÍ um agamál var Val gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð. Greinargerð hefur borist frá Val. Samkvæmt 6. kafla reglugerðar HSÍ um agamál er stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til aganefndar atvikum sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega. Aganefnd hefur farið yfir umrædd ummæli. Aganefnd tekur undir að leikmaðurinn hefði í viðtalinu mátt viðhafa varfærnislegra orðalag. Innan tjáningarfrelsis leikmannsins rúmast, að mati nefndarinnar, réttur hans til að segja, innan skynsamlegra marka, skoðun sína á frammistöðu dómara, leikmanna og skipulagi HSÍ. Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli ekki í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Að mati nefndarinnar er ekki tilefni til að láta aðila sæta viðurlögum í máli þessu en áréttar þó mikilvægi þess að leikmenn líkt og þjálfarar liða sýni í orðum og í verki þá almennu háttvísi og framkomu sem samboðin er handknattleiksíþróttinni.

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Arnar Kormákur Friðriksson, Sverrir Pálmason og Vala Valtýsdóttir.