Úrskurður aganefndar 19. febrúar 2020

Eftirtalin mál lágu fyrir og voru tekin til úrskurðar:

1.
Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ, með vísan til 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál, vegna leikbrots Heimis Pálssonar, leikmanns Þórs Ak., sem kom upp í leik Þórs Ak. og Gróttu í mfl. ka. þann 11.2.2020. Í samræmi við 20. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var Þór Ak. gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð. Greinargerð hefur borist frá félaginu. Samkvæmt 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til aganefndar atvikum, s.s. leikbrotum, sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar og ekki hafa komið fram í atvikaskýrslu dómara eða eftirlitsmanns. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega. Aganefnd hefur farið yfir myndbandsupptöku af umræddu leikbroti, sem fyrir liggur að dómarar leiksins sáu ekki að öllu leyti. Það er mat nefndarinnar að umrætt leikbrot hefði að öllum líkindum valdið útilokun leikmanns ef dómarar leiksins hefðu séð atvikið að öllu leyti. Hér kemur hins vegar fyrst og fremst til skoðunar af hálfu nefndarinnar hvort umrætt atvik feli í sér ósæmilega framkomu af hálfu viðkomandi leikmanns sem er til þess fallin að skaða ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Að mati nefndarinnar er það skilyrði ekki uppfyllt í þessu tilfelli. Þegar af þeirri ástæðu bresta skilyrði nefndarinnar til að aðhafast vegna málsins.

2.
Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ, með vísan til 19. gr. reglugerðar HSÍ um agamál, vegna meintrar háttsemi leikmanns Kríu og meints brots hans gegn framgreindri grein. Í samræmi við 20. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var Kríu og viðkomandi leikmanni gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð. Greinargerð hefur borist frá félaginu og viðkomandi leikmanni. Með vísan til skýringa framgreindra aðila og þeirra gagna sem lögð hafa verið fram er að mati nefndarinnar ósannað að viðkomandi leikmaður sé sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök. Þegar af þeirri ástæðu mun nefndin ekki aðhafast frekar vegna þessa máls. Aganefnd telur þó brýna þörf á að árétta að samkvæmt 19. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er öllum sem taka þátt í leikjum á vegum HSÍ óheimilt að veðja á leiki félaga sinna eða atvik í þeim leikjum með beinum eða óbeinum hætti. Þetta á við um leikmenn, starfsmenn, dómara félaga og stjórnarmenn félaga og aðila þeim tengdum. Dómarar HSÍ, starfsmenn HSÍ, stjórnarmenn og nefndarmenn HSÍ eða aðila þeim tengdum er jafnframt óheimilt að veðja á leiki á vegum HSÍ eða atvik í þeim leikjum með beinum eða óbeinum hætti. Jafnframt er öllum þessum aðilum bannað að veita öðrum upplýsingar, sem ekki eru opinberar upplýsingar, í þeim tilgangi að hafa áhrif á veðmál.

3.
Roberta Ivanauskaite leikmaður Aftureldingar hlaut útilokun með skýrsla vegna grófs leikbrots í leik Vals og Aftueldingar í mfl. kv. þann 14.2. 2020. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 b). Með tilvísun í 11. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann að teknu tilliti til stighækkandi áhrifa útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar. Leikmaðurinn hefur nú hlotið þrjár útilokanir vegna brota sem falla undir reglu 8:5.

4.
Logi Snædal Jónsson leikmaður Víkings hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Þórs Ak. og Víkings í mfl. ka. þann 15.2.2020. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a). Með tilvísun í 1. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar er málinu frestað um sólarhring. Aganefnd felur skrifstofu HSÍ að kynna viðkomandi félagi fram komna skýrslu og gefa því færi á að koma að athugasemdum í málinu áður en aganefnd tekur málið aftur fyrir á fundi sínum.

5.
Ægir Hrafn Jónsson leikmaður Fram hlaut útilokun með skýrsla vegna grófs leikbrots í leik Fram og HK í mfl. ka. þann 15.2. 2020. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.

6.
Daði Jónsson leikmaður KA hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Stjörnunnar og KA í mfl. ka. þann 15.2.2020. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a). Aganefnd hefur yfirfarið myndbandsupptöku af atvikinu og telur atvikalýsingu í agaskýrslu ekki að öllu leyti eiga við um viðkomandi leikmann. Með vísan til framangreinds og tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar. 

7.
Úlfur Gunnar Kjartansson leikmaður ÍR hlaut útilokun með skýrsla vegna grófs leikbrots í leik FH og ÍR í mfl. ka. þann 16.2. 2020. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.

Úrskurðurinn tekur gildi á hádegi fimmtudaginn 20. febrúar 2020.

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Arnar Þór Sæþórsson.