Úrskurður aganefndar 10. janúar 2023

Eftirtalin mál lágu fyrir og var tekið til úrskurðar:

Þann 20. desember 2022 barst aganefnd skýrsla frá dómurum leiks Kórdrengja og Harðar í Bikarkeppni karla, er fram fór þann 16. desember 2022. Í skýrslunni greinir að við lok fyrri hálfleiks hafi áhorfandi á vegum Harðar nálgast dómara leiksins við ritaraborð og haft þar í frammi ósæmileg ummæli um dómara leiksins. Hafi umræddum áhorfanda ítrekað verið bent á að hann ætti ekki erindi við ritaraborð og að lokum verið vísað út úr húsi, vegna framkomu hans.

Með vísan til 4. mgr. 17. gr. reglugerðar HSÍ um agamál, óskaði aganefnd umsagnar Harðar vegna atviksins. Aganefnd bárust tvær umsagnir, dags. 21. og 29. desember 2022.

Í 17. gr. reglugerðar HSÍ um agamál kemur fram að „ef áhorfendur, þar með taldir forystumenn félaga, gerast sekir um vítaverða eða hættulega framkomu gagnvart leikmönnum, dómurum eða starfsmönnum leiks, er aganefnd heimilt að sekta viðkomandi félag þar sem leikurinn fer fram sem og gestaliðið í sérstökum tilvikum“.

Aganefnd hefur farið yfir framangreint atvik. Leikurinn fór fram á heimavelli Kórdrengja og ekki liggja fyrir upplýsingar um sérstök tengsl umrædds áhorfanda við gestaliðið. Með vísan til framangreinds telur nefndin ekki ástæðu til þess að aðhafast vegna málsins, að teknu tilliti til framangreindra ákvæða reglugerðarinnar.

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Ágúst Karl Karlsson