Úrskurður aganefndar 04. október 2022

Eftirtalin mál lágu fyrir og var tekið til úrskurðar:

1. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson leikmaður Fram hlaut útilokun með skýrslu vegna grófrar ódrengilegrar hegðunar í leik FH og Fram í Olís deildar karla þann 29.09.2022.  Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:9 e).  Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.

2. Birgir Steinn Jónsson leikmaður Gróttu hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Aftureldingar og Gróttu í Olís deild karla þann 29.09.2022.  Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a).  Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar.

3. Stefán Rafn Sigurmannsson leikmaður Hauka hlaut útilokun með skýrslu vegna grófrar ódrengilegrar hegðunar í leik Stjörnunnar og Hauka í Olís deild karla þann 30.09.2022.  Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:9 d).  Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.

4. Þann 3. október 2022 barst aganefnd erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna ummæla Einars Jónssonar, þjálfara Fram, í viðtali í kjölfar leiks FH og Fram í Olís deild karla er fram fór þann 29. september 2022.  Viðtalið birtist á visi.is þann 29. september 2022 og í Seinni Bylgjunni þann 30. september 2022.

Ummælin sem um ræðir eru m.a. eftirfarandi:

„Gauti bombar í andlitið á honum, ég held hann þoli ekki þennan gaur þannig að ég skil það vel að hann hafi bombað í andlitið á honum“.

Einar Jónsson hefur beðist afsökunar á framangreindum ummælum. Í yfirlýsingu Einars kemur m.a. fram að ummælin hafi verið sett fram í gríni og hafi ekki átt að særa neinn.

Í samræmi við 20. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var Fram gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð vegna erindis framkvæmdastjóra HSÍ. Greinargerð barst frá Fram þann 4. október 2022.

Samkvæmt 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til aganefndar atvikum sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega. Aganefnd telur að umrædd ummæli falli undir ákvæði 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál, en með orðum sínum veittist þjálfarinn að háttvísi og heilindum leikmanns íþróttarinnar. Þá telur nefndin að ummælin séu til þess fallin að gera lítið úr þeirri umræðu sem átt hefur sér stað innan íþróttahreyfingarinnar um alvarleika höfuðáverka. Breytir þar engu hvort ummælin hafi verið sett fram í háði og spotti. Slík háttsemi gengur gegn 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og er til þess falllin að skaða ímynd íþróttarinnar út á við.

Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Aganefnd telur því ljóst að umrætt atvik falli undir 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og efni standi til að láta þjálfarann sæta viðurlögum í máli þessu. Er Einar Jónsson því úrskurðaður í eins leiks bann.

 Áréttar aganefnd mikilvægi þess að þjálfarar og leikmenn liða sýni í orðum og í verki þá almennu háttvísi og framkomu sem samboðin er handknattleiksíþróttinni.

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Arnar Kormákur Friðriksson, Arnar Þór Sæþórsson og Ágúst Karl Karlsson