Heims,- og Ólympíumeistarar Danmerkur verða fyrstu andstæðingar íslenska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu í handknattleik en lið þjóðanna eru í E-riðli ásamt landsliðum Rússa og Ungverja. Flautað verður til leiks Íslands og Danmerkur á morgun klukkan 17.15 að íslenskum tíma. Þá verður viðureign Rússa og Ungverja að baki.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, segir engan vafa á að Danir hafi á að skipa besta landsliði heims um þessar mundir. Það verði spennandi og skemmtilegt verkefni fyrir íslenska liðið að hefja keppnina gegn þeim bestu.

„Danir hafa á að skipa frábærum markvörðum, vörnin er góð. Í ofanálag þá er danska liðið frábært sóknarlið sem hefur yfir að ráða mjög mikilli breidd af leikmönnum. Það virðist alltaf koma maður í manns stað og nánast er hægt að manna hverja stöðu með þremur leikmönnum, slík er breiddin. Helst hefur Dönum skort örvhentar skyttur en þeir hafa leyst það með því að leika með hægri handarskyttu og gert það afar vel,“ sagði Guðmundur Þórður í samtali.

„Það er ekki veikur hlekkur í danska liðinu. Þess vegna er það Ólympíumeistari og heimsmeistari,“ sagði Guðmundur ennfremur og benti á að danska landsliðið væri e.t.v. komið á svipaðan stað og franska landsliðið var á um skeið.

Auk gæðanna innan danska liðsins þá býr það yfir mikilli reynslu eftir að flestir leikmenn þess hafa verið í eldlínunni árum saman, bæði með landsliðinu og félagsliðum sínum. Guðmundur þjálfaði danska landsliðið í þrjú ár, frá 2014 til 2017. „Liðin eru sex ár síðan ég tók við danska landsliðinu. Flestir þeir leikmenn sem eru í liðinu í dag léku undir minni stjórn sem vill segja að það hefur átt sér margra ára þróun á þessu öfluga liði. Þess utan þá leika nær allir leikmenn liðsins með nokkrum af bestu félagsliðum heims sem undirstrikar ennfrekar styrkinn sem býr í landsliðshópnum,“ sagði Guðmundur.

Segja má að Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana sem tók við af Guðmundi fyrir tveimur árum, hafi meira og minna haldið sig við sömu leikaðferðir og leikskipulag og Guðmundur vann með á sínum tíma. Svipaða sögu má segja um varnarleikinn sem í meginatriðum er eins og hann var í Guðmundar.

Þrátt fyrir að andstæðingurinn sé ógnarsterkur þá er engan bilbug að finna á Guðmundi og leikmönnum íslenska landsliðsins sem horfa til leiksins með eftirvæntingu enda er ævinlega gaman að glíma við Dani og fást við þá bestu hverju sinni.

„Við munum gera okkar allra besta í leiknum og kvíðum engu. Allir leikmenn íslenska liðsins eru klárir í slaginn. Elvar Örn hefur æft með okkur af fullum krafti eftir að við komum hingað út til Malmö. Hann hefur náð ótrúlega hröðum bata. Þar er fyrst og fremst að þakka Jóni Birgi Guðmundssyni sjúkraþjálfara. Hann hefur unnið kraftaverk með ökklan á Elvari. Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari.

Úrslit leikja milli Íslands og Danmörku á EM:

EM 2000 Ísland –Danmörk 24:26

EM 2002 Ísland – Danmörk 22:29 – leikur um þriðja sæti mótsins

EM 2006 Ísland – Danmörk 28:28

EM 2010 Ísland – Danmörk 27:22

EM 2014 Ísland – Danmörk 23:32

Eins og fyrr segir þá er valinn maður í hverju rúmi í danska landsliðinu. Enginn vafi leikur þó á að stórksyttan Mikkel Hansen er stærsta stjarna liðsins. Hann var valinn besti leikmaður HM og það ekki að ástæðulausu. Hansen er samherji Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá PSG. Aðrir helstu leikmenn liðsins eru t.d. Niklas Landin, markvörður hjá Kiel í Þýskalandi, leikstjórnandinn Rasmus Lauge sem um þessar mundir leikur með ungverska liðinu Veszprém, línumaðurinn René Toft Hansen, liðsmaður Benfica að ógleymdum hinum íslenska Hans Óttari Lindberg. Mikið mun mæða á Lindberg í leiknum við Íslendingar því Lasse Svan Hansen verður ekki með vegna meiðsla.

Allt frá því að danska landsliðið vann bronsverðlaun á EM 2002 í Svíþjóð þá hefur liðið unnið tíu sinnum til viðbótar til verðlauna á stómóti í handknattleik á þessari öld. Þar af eru fern gullverðlaun, tvenn þeirra eru frá Evrópumótum, 2008 og 2012. Markmið Dana fyrir EM2020 er skýrt. Þeir ætla sér að vinna gullverðlaunin og ná þeim einstaka árangri að vera handhafar allra stóru titilanna í handknattleik karla á sama tíma.

Svona er 19 manna æfingahópur danska landsliðsins skipaður:

Markverðir:

• Niklas Landin (THW Kiel)

• Jannick Green (SC Magdeburg)

Skyttur og miðjumenn:

• Niclas Kirkeløkke (Rhein-Neckar Löwen)

• Mikkel Hansen (PSG Paris)

• Henrik Møllgaard (Aalborg Håndbold)

• Mads Mensah Larsen (Rhein-Neckar Löwen)

• Rasmus Lauge (Vészprem KC)

• Morten Olsen (TSV Hannover-Burgdorf)

• Jacob Holm (Füchse Berlin)

• Michael Damgaard (SC Magdeburg)

• Lasse Andersson (FC Barcelona)

Hornamenn:

• Magnus Landin (THW Kiel)

• Magnus Bramming (TTH Holstebro)

• Lasse Svan Hansen (Flensburg-Handewitt)

• Hans Lindberg (Füchse Berlin)

• Johan Hansen (Bjerringbro-Silkeborg)

Línumenn:

• René Toft Hansen (S.L. Benfica)

• Magnus Saugstrup (Aalborg Håndbold)

• Anders Zachariassen (Flensburg-Handewitt)

Leikur Íslendinga og Dana fer fram í Malmö-Arena, glæsilegu íþróttamannvirki sem rúmar um 15 þúsund áhorfendur í sæti. Malmö-Arena var m.a. vettvangur úrslitaleikja HM í handknattleik 2011. Flautað verður til leiks klukkan 17.15 að íslenskum tíma.



#
handbolti

 


#
strakarnirokkar