Ísland – Slóvenía mættust í annað sinn með stuttu millibili út í Celje í dag, en leikurinn var liður í undankeppni EM sem fram fer í Frakklandi í lok árs.

Það var ljóst frá byrjun að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt í dag, þar sem stelpurnar okkar spiluðu sína 5:1 vörn með Hafdísi Lilju Renötudóttu frábæra í markinu sem varði oft á tíðum stórkostlega. Stelpurnar reyndu auk þess að keyra upp hraðann í sókninni og nýttu hvert tækifæri að sækja hratt á Slóvenana. Heimamenn höfðu þó frumkvæðið og leiddu 5-3 eftir 10 mínútur. Jafnræði var með liðinum og stelpurnar okkar sköpuðu sér ágæt færi en voru óheppnar í skotunum og mega þakka Hafdísi Lilju það að munurinn hélst bara í tveimur til þremur mörkum framan af. Það voru þó heimamenn sem gáfu í undir lok hálfleiksins og staðan skyndilega orðin 15-10 þegar flautað var til leikhlés.

Stelpurnar mættu því miður ekki vel til leiks í þeim seinni, Slóvenarnir gengu á lagið og juku muninn upp í 10 mörk á skömmum tíma. Þá kom góður kafli hjá íslenska liðinu og þær minnkuðu muninn niður í 7 mörk þegar 15 mínútur lifðu af leiknum. En allt kom fyrir ekki, þær slóvensku héldu áfram sækja stíft á stelpurnar okkar og tryggðu sér að lokum sannfærandi sigur 28 -18.


Markaskorarar og varðir boltar:

Birna Berg Haraldsdóttir 4, Karen Knútsdóttir 2, Arna Sif Pálsdóttir 2, Ragnheiður Júlíusdóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 2, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Helena Rut Örvarsdóttir 1, Perla Ruth Albertsdóttir 1, Ester Óskarsdóttir 1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1.

Hafdís Lilja Renötudóttir varði 11 skot, Guðní Jenný Ásmundsdóttir 4 og Elín Jóna Þorsteinsdóttir 2.