A landslið kvenna mætti Svíum í dag á móti í Zielona Góra í Póllandi.

Svíar tefldu fram sínu sterkasta liði og er þetta fyrsti leikur þeirra eftir Ólympíuleikana í Ríó í sumar. Þær sænsku tóku snemma öll völd á vellinum og leiddu í hálfleik 20-12.

Meira jafnvægi var í leiknum í síðari hálfleik, íslenska liðið spilaði mikið með 7 leikmenn í sókn (án markvarðar) og gafst það ágætlega. Að lokum voru þær sænsku sem unnu með 10 marka mun 33-23.

Mörk Íslands í leiknum:

Karen Knútsdóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Rut Jónsdóttir 3, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Steinunn Hansdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 2, Lovísa Thompson 1, Arna Sif Pálsdóttir 1, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1.

Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Axels Stefánssonar.

Á morgun leikur íslenska liðið við tapliðið úr leik Póllands og Slóvakíu, en þau eigast við þessa stundina.