Stelpurnar okkar unnu frábæran sigur í miklum baráttuleik gegn Austurríki í Færeyjum í dag.

Fyrstu 10 mín voru vel spilaðar af íslenska liðinu sem komst í 4-1 og 5-2, en þá tóku þær austurrísku við sér og eftir 20 mín leik voru þær búnar að jafna. Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði hálfleiksins og þegar liðin gengu til búningsklefa var staðan 12-12.

Síðari hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri endaði, mikil barátta og jafnræði með liðunum. Jafnt var á flestum tölum þar til um 10 mín voru eftir en þá náði íslenska liðið að binda saman vörnina og komast nokkrum mörkum yfir. Að lokum voru það stelpurnar okkar sem fögnuðu frábærum sigri, lokatölur 28-24.

Mörk Íslands í leiknum:

Karen Knútsdóttir 5, Birna Berg Haraldsdóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 4, Arna Sif Pálsdóttir 3, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3, Steinunn Hansdóttir 3, Rakel Dögg Bragadóttir 2, Lovísa Thompson 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1.

Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 13 skot í leiknum.

Á morgun leikur íslenska liðið við heimastúlkur í Færeyjum kl.17.00. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.