Stelpurnar okkar unnu eins marks sigur á Spánverjum í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti á HM í Laugardalshöll í kvöld.

Leikurinn fór heldur rólega af stað, þær spænsku skoruðu á undan en íslenska liðið var skammt undan. Þó að íslenska liðinu tækist nokkrum sinnum að jafna í fyrr hálfleik komst spænska liðið alltaf aftur yfir og hafði 2 marka forystu í hálfleik, 13-15.

Stelpurnar okkur hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og komust yfir í fyrsta skipti í leiknum á 44. mínútu. Eftir mikinn barning á lokamínútum leiksins þar sem liðin skiptust á að hafa forystu tókst íslenska liðinu að landa eins marks sigri, 32-31.

Góður sigur hjá stelpunum okkar á sterku liði Spánverja en hann gefur því miður lítið þar sem fyrri leikurinn á Spáni tapaðist með 9 marka mun. Þetta fer þó í reynslubankann, stelpurnar áttu góða kafla í vörn og sókn í báðum leikjun en því miður varð fyrri hálfleikurinn á Spáni liðinu að falli að þessu sinni.

Þórey Rósa Stefánsdóttir fyrirliði íslenska liðsins lék sinn 100. landsleik í Noregi fyrir viku síðan og fékk hún viðurkenningu frá Guðmundi B. Ólafssyni, formanni HSÍ fyrir leik.

Markaskorarar Íslands:

Arna Sif Pálsdóttir 8, Sigríður Hauksdóttir 7, Karen Knútsdóttir 6, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Rut Jónsdóttir 3, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Helena Rut Örvarsdóttir 1, Díana Dögg Magnúsdóttir 1 og Steinunn Björnsdóttir 1.

Hafdís Renötudóttir 7 varði skot og Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 3.