Stelpurnar okkar mættu Slóveníu í þriðju umferð 5. riðils í Laugardalshöll í kvöld. Íslenska liðið mætt afar einbeitt til leiks og það var ljóst frá fyrstu mínútu að þær ætluðu að selja sig dýrt. Íslenska liðið spilaði sína 5:1 vörn með Hafdísi Renötudóttir í markinu sem stóð vaktina vel í fyrri hálfleik. Það var jafnt á öllum tölum og liðin skiptust á að taka forystu, þó aldrei meira en tvö mörk, þar til á 20. mínútu þegar Slóvenar náðu þriggja marka mun og Axel Stefánsson tók leikhlé í stöðunni 8-11. Eftir að stelpurnar okkar náðu að minnka muninn niður í eitt mark þegar fimm mínútur voru eftir jókst munurinn á nýjan leik á skömmum tíma og Slóvenía náði 4 marka forystu, 13-17. Stelpurnar gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn aftur í eitt mark fyrir leikhlé með marki frá Þórey Rósu Stefánsdóttur, 16-17.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og fyrri endaði. Stelpurnar okkar voru grimmar og náðu eins marks forystu á fyrstu mínútunum, áður en Slóvenar snéru við taflinu og juku muninn aftur í þrjú mörk 21-24 í sveiflukenndum leik. Þegar 10 mínútur lifðu af leiknum var allt í járnum, 25-25 og spennandi lokamínútur framundan. Guðrún Jenný Ásmundsdóttir, sem hafði komið inn á þegar 20 mínútur lifðu af leiknum, lokaði markinu á stórum köflum og Ísland náði tveggja marka forystu 27-25 og 6 mínútur eftir. Stemningin var rafmögnuð í Höllinni þegar að lokamínúturnar gengu í garð og Helena Rut Örvarsdóttir náði aftur tveggja marka forystu fyrir stelpurnar okkar 28-26 og rúmar þrjár mínútur eftir, en allt kom fyrir ekki og Slóvenarnir jöfnuðu aftur þegar ein og hálf mínúta voru til leiksloka. Þórey Rósa fór í hraðarupphlaup, fékk víti og Karen Knútsdóttir náði forystu. Slóvenar náðu þó að jafna með góðri sók þegar 3 sekúndur lifðu leiks. Axel Stefánsson tók leikhlé og freistaðist til þess að knýja fram sigur, en allt kom fyrir ekki og jafntefli niðurstaðan í alveg mögnuðum leik, lokatölur 30-30. Svekkjandi úrslit en stelpurnar okkar stóðu sig gríðarlega vel og það er greinilegur stígandi í leik liðsins. Nú tekur við ferðalag til Celje þar sem íslenska liðið spilar aftur gegn Slóveníu á sunnudag kl. 16.00 en leikurinn verður í beinni á
RÚV.

Áfram Ísland!

Markaskorarar Íslands:

Helena Rut Örvarsdóttir 10, Þórey Rósa Stefánsdóttir 6, Karen Knútsdóttir 4, Birna Berg Haraldsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Arna Sif Pálsdóttir 1, Ester Óskarsdóttir 1, Perla Ruth Albertsdóttir 1, Eva Björk Davíðsdóttir 1.

Hafdís Lilja Renötudóttir varði 12 skot og Guðný Jenný Ásmundsdóttir 5.