A landslið kvenna | Jafntefli gegn Slóveníu

Stelpurnar okkar léku síðari leik sinn gegn Slóveníu í umspili um laust sæti á HM á Spáni. Eftir 10 marka tap í fyrri leik liðanna voru líkurnar ekki með okkar stúlkum en þær létu það ekki hafa nein áhrif á sig og börðust til seinasta manns.

Varnir beggja liða voru sterkar í upphafi leiks og gekk liðunum illa að skora, stelpurnar okkur höfðu þó frumkvæðið og allt þar til á lokamínútum hálfleiksins. Þá náðu Slóvenar góðum kafla og þegar flautað var til hálfleiks höfðu þær eins marks forystu, 8-9.

Íslenska liðið hóf síðari hálfleikinn af miklum krafti og náði aftur frumkvæðinu en alltaf voru Slóvenar skammt undan. Jafn var á öllum tölum lokamínútur leiksins en stelpurnar okkkar nældu í víti á lokasekúndunum sem Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði úr og jafnaði leikinn eftir að leiktíminn var runninn út. Niðurstaðan því jafntefli, 21-21.

Markaskorar Íslands:
Ragnheiður Júlíusdóttir 5, Lovísa Thompson 4, Sigríður Hauksdóttir 4, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 3, Rut Jónsdóttir 2, Helena Rut Örvarsdóttir 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 7 skot í leiknum.

Slóvenía hefur því tryggt sér sæti á HM í desember en þó ber að hrósa íslenska liðinu fyrir að hafa bætt sinn leik frá því á sunnudag.

Næst tekur við undankeppni fyrir Evrópumót kvennalandsliða en sú keppni hefst í haust. Þá getum við vonandi mætt öll í stúkuna og stutt við bakið á stelpunum okkar á nýjan leik.

Ljósmyndari: Mummi Lú