Slóvenar eru næsti andstæðingur íslenska landsliðsins á EM2020 í handknattleik. Leikur þeirra verður á morgun kl. 15 í Malmö Arena og markar upphaf milliriðils tvö á mótinu.

Slóvenar hafa verið á siglingu á mótinu og ekki tapað leik. Þeir unnu Pólverja, 26:23, í fyrstu umferð F-riðils sem leikinn var í Gautaborg. Því næst lögðu Slóvenar liðsmenn Kristjáns Andréssonar í sænska landsliðinu, silfurlið EM fyrir tveimur árum, 21:19, áður en sigur vannst á landsliði Sviss, 29:25, í lokaumferðinni.

Slóvenar eru rótgróin handboltaþjóð sem hefur allt frá því að landið var sjálfstætt eftir uppskipti Júgóslvaíu verið í hópi fremstu landsliða heims í handknattleik. Landsliðið hefur ævinlega á að skipa góðum hópi harðsnúinna handknattleiksmanna. Margir þeirra leika með fremstu handknattleiksliðum Evrópu. Þeir hafa löngum leikið framliggjandi vörn og hraðan og skemmtilegan handknattleik, þótt þeir geti einnig dregið hressilega niður í hraða leikja eins og sýndi sig vel í viðureigninni við Svía í riðlakeppni EM.

Nýverið tók Svíinn Ljubomir Vranjes við þjálfun slóvenska landsliðsins. Kappinn sá virðist hafa náð að hressa upp á liðið sem var e.t.v. ekki alveg upp sitt allra besta á síðari hluta þjálfaratímabils Veselin Vujovic. Til að mynda voru Slóvenar ekki með á HM fyrir ári.

Meðal helstu kappa liðsins um þessar mundir má nefna leikstjórnandann Dean Bombac sem leikur með Pick Szeged í Ungverjalandi. Línumaðurinn Blaz Blagotinsek er ekkert lamb að leika við. Stór og hraustur. Blagotinsek er liðsmaður Veszprém í Ungverjalandi.

Örvhenti hornamaðurinn Blaz Janc er einn sá besti í heiminum í dag. Janc hefur samið við Barcelona og flytst þangað í sumar frá Vive Kielce. Einn strákanna okkar, Sigvaldi Björn Guðjónsson, er ætlað að fylla skarð Janc hjá pólska meistaraliðinu. Janc hefur skorað 10 mörk í keppninni fram til þessa. Jure Dolinec er enn einn frábær leikmaður landsliðs Slóvena um þessar mundir og markahæsti leikmaður þess í keppninni með 14 mörk. Dolinec er örvhent skytta og samherji Arons Pálmarssonar hjá Barcelona.

Aðalmarkvörður Slóvena, Klemen Ferlin, hefur átt afar góða leiki í keppninni. Hann hefur varið 38% þeirra skota sem á mark hans hafa komið. Ferlin, sem leikur með meistaraliði Slóveníu, Celje Laski, er í fjórða sæti á lista yfir þá markverði sem varið hafa hvað mest á mótinu.

Fram til þessa hefur landsliðs Slóvena skorað 76 mörk á EM2020 en fengið á sig 67 mörk. Íslenska liðið hefur aftur á móti skorað 83 mörk en mátt hirða boltann 77 sinnum úr marki sínu.

Úrslit leikja okkar við Slóvena á EM frá 2000:

EM2000, Ísland – Slóvenía 26:27

EM2002, Ísland – Slóvenía 31:25

EM2004, Ísland – Slóvenía 28:34

EM2012, Ísland – Slóvenía, 32:34

Síðast mættust landslið Slóveníu og Íslands á HM 2017. Leikið var í Metz í Frakklandi. Slóvenum tókst að merja sigur, 27:26, eftir hörkuleik þar sem íslenska liðið lék afar vel í síðari hálfleik og var hársbreidd frá að ná jafntefli.

Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 15 á morgun og verður í beinni útsendingu RÚV. Einnig verður tölfræði uppfærð í rauntíma hjá HBStatz. Vísir.is verður einnig með textalýsingu beint úr Malmö Arena þar með blaðamaður Vísis verður á staðnum.#
strakarnirokkar

 


#
handbolti

 


#
ehfeuro2020

 


#
dreamwinremember