Alexander Petersson og Aron Pálmarsson náðu þeim áfanga í gærkvöld í tapleiknum við Ungverja, 24:18, að rjúfa 100 marka múrinn í lokakeppni EM. Þar með hafa sex leikmenn skorað meira en 100 mörk fyrir landsliðið í lokakeppni EM frá því að það tók fyrst þátt fyrir 20 árum.
Alexander skoraði þrjú mörk í leiknum í gær og er þar með búinn að skora 101 mark. Aron var með fjögur mörk er hefur skorað 102 mörk.
Alexander skorað sitt fyrsta mark í lokakeppni EM 2006 í sigurleika á Serbum/Svarfellingum, sem þá tefldu fram sameiginlegu landsliði, 36:31, í Sursee í Sviss 26. janúar 2006. Alls skoraði Alexander þrjú mörk í leiknum.
Fyrsta mark sitt í lokakeppni EM skoraði Aron í sigurleik á Dönum á EM 2010, 27:22, 23. janúar í Linz í Austurríki. Aron skoraði fimm mörk í leiknum.
Eftirtaldir sex leikmenn hafa skoraði yfir 100 mörk fyrir landsliðið í lokakeppni EM:
Guðjón Valur Sigurðsson        278
Ólafur Stefánsson                    184
Snorri Steinn Guðjónsson       143
Róbert Gunnarsson                 106
Aron Pálmarsson                      102
Alexander Petersson               101