Sjötti leikur íslenska landsliðsins, strákanna okkar, á Evrópumótinu í handknattleik verður við frændur okkar Norðmenn sem hafa farið hafa á kostum í keppninni. Norska liðið hefur unnið allar fimm viðureignir sínar á sannfærandi hátt, gegn Bosníu, Frakklandi og Portúgal í riðlakeppninni og á móti Svíum og Ungverjum í milliriðlum. Norska liðinu er spáð frama í keppninni og ekki að ástæðulausu eins og það hefur leikið. Allt frá EM 2016 hefur norska landsliðið verið í allra fremstu röð á stórmótum og m.a. leikið til úrslita á tvennum síðustu heimsmeistaramótum og um bronsið á EM2016 í Póllandi.

„Framundan hjá okkur er leikur við eitt af þremur bestu landsliðum í heiminum í dag, að mínu mati. Lið sem lék til úrslita á HM í fyrir ári og hefur auk þess spilað afar vel í þessari keppni,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, á blaðamannafundi fyrr í dag. „Það er deginum ljósara að við þurfum að eiga algjöran toppleik til að standast Norðmönnum snúning. Með því móti tel ég að möguleikar séu fyrir hendi af okkar hálfu. Af þeim sökum munum við selja okkur dýrt. Við sýndum það með sigrinum á heimsmeisturum Dana að við getum gert ýmislegt en til þess verðum við að eiga sannkallaðann toppleik,“ sagði Guðmundur Þórður ennfremur.

Enginn hefur leikið betur í norska liðinu á þessu móti en hinn 24 ára gamli Sandor Sagosen, samherji Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá franska stórliðinu PSG. Sagosen hefur nánast leikið alla leiki norska liðsins í keppninni frá upphafi til enda. Hann er maðurinn á bak við 49% marka liðsins í mótinu. Alls hefur Sagosen skorað 42 mörk auk þess að hafa átt 33 stoðsendingar sem hafa skilað mörkum. Hann er sannkallaður lykilmaður liðsins en hann er alls ekki sá eini sem eitthvað kveður að. Það er valinn maður í hverju rúmi eins sagt var til sjós í gamla daga.

Markvörðurinn Torbjörn Bergerud hefur átt toppleiki þegar á honum hafa staðið öll spjót, m.a. gegn Frökkum og síðast á móti Svíum í gærkvöldi þegar hann var með 42% hlutfallsmarkvörslu.

Þær fregnir bárust úr herbúðum norska liðsins í dag og örvhenta skyttan Magnus Röd sé úr leik sökum meiðsla. Vissulega er það áfall fyrir norska liðið sem er alls ekki á flæðiskeri statt þegar kemur að örvhentum skyttum því Eivind Tangen og Harald Reinkind eru einnig framúrskarandi leikmenn. Sá síðarnefndi hefur skorað 13 mörk í keppninni og Tangen 3. Vinstri hornamaðurinn Magnus Jöndal er frábær á sínu sviði, bæði í horninu og eins eldfljótur hraðaupphlaupsmaður til viðbótar að vera afar örugg vítaskytta. Jöndal er næst markahæsti leikmaður liðsins með 22 mörk.

Hvert sem litið er þá er norska landsliðið afar vel mannað og undir traustri stjórn Christians Berge sem hefur verið landsliðsþjálfari frá 2014 og stýrt uppbyggingu landsliðsins af myndarskap.

Úrslit í leikjum við Norðmenn á stórmótum í gegnum tíðina:

HM 1997 | Ísland – Noregur 32:28

EM 2006 | Ísland – Noregur 33:36

HM 2011 | Ísland – Noregur 29:22

EM 2010 | Ísland – Noregur 35:34

EM 2012 | Ísland – Noregur 34:32

EM 2014 | Ísland – Noregur 31:26

EM 2016 | Ísland – Noregur 26:25

Leikur Íslands og Noregs hefst klukkan 17.15 á morgun, þriðjudag, og verður í beinni útsendingu RÚV. Einnig verður tölfræði uppfærð í rauntíma hjá HBStatz. Vísir.is verður einnig með textalýsingu beint úr Malmö Arena þar með blaðamaður Vísis verður á staðnum.#
strakarnirokkar

 


#
handbolti

 


#
ehfeuro2020

 


#
dreamwinremember