Fimmti leikur íslenska landsliðsins á Evrópumótinu verður gegn landsliði Portúgals á morgun. Flautað verður til leiks í Malmö Arena klukkan 13. Landslið Portúgal hefur komið mörgum á óvart á mótinu og er jafnvel talað um þar sé á ferðinni spútniklið keppninnar. Portúgalar skelltu stjörnum prýddu liði Frakka í riðlakeppninni í hörkuleik og lögðu þar með grunn að brotthvarfi franska liðsins úr keppninni fyrr en flestir áttu von á.

Portúgalska landsliðið fylgdi Norðmönnum eftir inn í milliriðlakeppnina án stiga. Þeir byrjuðu milliriðlakeppnina í gærkvöld með stórsigri heimamönnum í sænska landsliðinu með tíu marka mun, 35:25. Portúgalar lögðu Svíana nánast á hné sér í leiknum og yfirspiluðu þá á köflum.

Helst vopn landsliðs Portúgals er að leika með sjö menn í sókn. Nokkuð sem íslenskir handknattleiksáhugamenn þekkja vel þar sem Norður-Makedóníumenn, sem oft hafa mætt Íslendingum á síðustu árum, hafa oft leikið með sjö menn í sókn. Portúgalska liðið leikur hinsvegar mun betur með sjö menn í sókn en Norður-Makedóníumenn. „Ekkert lið í heiminum leikur betur sjö á móti sex en landslið Portúgals,“
sagði Gumundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í dag. Fleiri áhugamenn jafnt sem atvinnumenn um handknattleik eru sama sinnis og Guðmundur.  Sumir taka svo djúpt í árinni og segja að portúgalska landsliðið hafi nær fullkomnað það afbrigði að leika með sjö menn í sókn.

Styrkur landsliðs Portúgals felst einnig í að margir leikmenn leika með Porto, fremsta félagsliði Portúgals. Þeir þekkja vel til hvers annars. Porto leikur með sjö manna sókn og hefur náð ágætum úrslitum í leikjum Meistaradeildar Evrópu.  Einnig er liðið vel skipulagt.  Það hefur á að skipa mjög góðum skyttum, línu- og hornamönnum sem eru í góðri líkamlegri æfingu. Sterkir og snöggir á fótunum.

Norðmenn kvörtuðu yfir portúgalska liðinu eftir viðureignina í riðlakeppnina. Sögðu þeir Portúgala hafa leikið mjög fast og óspart gengið of langt í að nýta líkamlegan styrk sinn. Hreinlega vera grófa.

Örvhenti hornamaðurinn Pedro Portela er markahæsti leikmaður liðsins með 16 mörk í fjórum fyrstu leikjum mótsins. Þar af skoraði Portela 10 af mörkum sínum gegn Bosníu í riðlakeppninni. Riu Silva, leikmaður Porto, er leikstjórnandi liðsins. Maður með mikla reynslu. Hann fór á kostum gegn Svíum og skoraði sex mörk í sjö skotum. Örvhenta skyttan Joao Miguel Ferraz var einnig í ham á móti Svíum í gærkvöld. Hann skoraði sex mörk í átta tilraunum.

Aðalmarkvörður portúgalska liðsins, Alfredo Quintana, er ekkert lamb að leika við. Quintana er rétt rúmir tveir metrar, kattliðugur og reynslumikill eftir að hafa leikið með Porto og portúgalska landsliðinu um árabil. Hann hefur átt þrjá afbragsgóða leiki í keppninni, gegn Frökkum, Bosníumönnum og Svíum en náði sér hinsvegar lítt á strik gegn Norðmönnum.

Íslenska landsliðið hefur mætt landsliði Portúgal þrisvar sinnum á stórmóti en 17 ár eru liðin frá síðustu viðureign, á HM 2003. Þá eins og nú var Guðmundur Þórður landsliðsþjálfari Íslands.

EM2000, Ísland – Portúgal, 25:28

HM2001, Ísland – Portúgal, 22:19

HM2003, Ísland – Portúgal, 29:28

Síðast leiddu Íslendingar og Portúgalar saman hesta sína í umspili fyrir HM2017. Leikið var í Laugardalshöll og í Porto 12. og 16. júni 2016. Íslenska liðið vann með þriggja marka mun í Höllinni, 26:23, en beið lægri hlut í Porto, 21:20, þar sem markvörðinn Quintana reyndist einkar óþægur ljár í þúfu.

Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 13 á morgun og verður í beinni útsendingu RÚV. Einnig verður tölfræði uppfærð í rauntíma hjá HBStatz. Vísir.is verður einnig með textalýsingu beint úr Malmö Arena þar með blaðamaður Vísis verður á staðnum.

#strakarnirokkar #handbolti #ehfeuro2020 #dreamwinremember