Íslenska landsliðið í handknattleik karla verður í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM2022 hinn 23. apríl nk. Þetta varð ljóst eftir að Handknattleikssamband Evrópu gaf út nýjan styrkleikalista í dag. Það er mikið fagnaðarefni að vera í efsta styrkleikaflokki og ætti að auka verulega möguleika okkar á verða með í lokakeppni EM 2022, tólfta EM í röð.  

Á listanum er  íslenska landsliðið í 11. sæti. Átta lið verða í efsta styrkleikalista en þar sem þrjár þjóðir sem eru fyrir ofan okkur taka ekki þátt í undankeppninni sleppum við inn í fyrsta styrkleikaflokk. Þjóðirnar þrjá sem eru fyrir ofan okkur og komast hjá undankeppninni eru nýkrýndir Evrópumeistarar Spánar, silfurlið Króata og Ungverjar, aðrir gestgjafar EM 2022. Að vera í efsta styrkleikaflokki þýðir að við getum ekki dregist á  móti Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Slóveníu og Tékklandi.

Í öðrum styrkleikaflokki verða: Austurríki, Hvíta-Rússland, Portúgal, Norður-Makedónía, Serbía, Rússland, Svartfjallaland og Holland.

Í þriðja styrkleikaflokki verða: Sviss, Litháen, Rúmenía, Bosnía, Úkraína, Lettland, Pólland og Belgía.

Í fjórða styrkleikaflokki verða: Finnland, Ítalía, Tyrkland, Ísrael, Eistland, Grikkland, Kosóvó og Færeyjar.

Dregið verður í átta fjögurra liða riðla.  Að riðlakeppninni lokinni 2. maí 2021 tryggja tvö efstu lið hvers riðils sér farseðla á EM2022 auk fjögurra þeirra sem standa best að vígi í þriðja sæti. Samtals lið 20 þjóða.

Að vanda verður leikið heima og að heiman í hverjum riðli, samtals sex leikir á hvert lið.  

Leikdagar í undankeppninni verða eftirfarandi:

4.,5.,7. og 8. nóvember 2020, 10.,11.,13. og 14. mars 2021, 28., 29. apríl og 2.maí 2021.

Lokakeppni EM2022 í karlaflokki verður í Ungverjalandi og Slóvakíu dagana 14. til 30. janúar 2022. Úrslitaleikirnir verða háðir í Búdapest í Ungverjalandi.