Í dag eru liðin 10 ár frá því að íslenska landsliðið í handknattleik karla, strákarnir okkar, vann eitt af stærri afrekum íslenskrar íþróttasögu þegar það hlaut bronsverðlaun á Evrópumótinu í Austurríki. Strákarnir okkar unnu Pólverja í bronsleiknum, 29:26, í Wiener Stadthalle í Vínarborg að viðstöddum nærri 10 þúsund áhorfendum, þar af mjög fjölmennum hópi íslenskra stuðningsmanna.

Leikurinn við Pólverja var afar eftirminnilegur eins og reyndar mótið í heild. Eftirminnilegasta atriði leiksins var án efa þegar Alexander Petersson hljóp uppi Pólverjann Tomas Tluczynski í hraðupphlaupi, kastaði sér fram fyrir hann og sló boltann út fyrir hliðarlínu. Þar með kom Alexander í veg fyrir að Pólverjar minnkuðu muninn í eitt mark þegar tæplega ein og hálf mínúta var til leiksloka og  spennan var sem mest. Staðan var þá 28:26, strákunum okkar í hag. Tilþrif Alexanders verða í minni höfð svo lengi sem handknattleikur verður stundaður eins og ummæli  Adolfs Inga Erlingssonar sem lýsti leiknum í beinni útsendingu RÚV; hvaðan kom hann, hvert er hann að fara, hvað er hann?

Strákarnir okkar gerðu jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum í mótinu, gegn Serbum, 29:29, og Austurríki, 37:37. Sigur á Dönum í þriðja og síðasta leik riðlakeppninnar, 27:22, laugardagskvöldið 23. janúar hrindi sannkölluðu handboltaæði af stað.

Á strákanna okkar var runninn hamur. Þeir fóru með þrjú stig af fjórum mögulegum í milliriðil. Í fyrsta leik í milliriðli gerðu þeir jafntefli við Króata, 26:26. Við tóku sigurleikir á Rússum, 38:30, og á Norðmönnum, 35:34, í sannkölluðum háspennutrylli. Þar með var sæti í undanúrslitum tryggt. Í undanúrslitum töpuðu strákarnir okkar fyrir Frökkum, 36:28. Var það eina tap þeirra í keppninnni. Frakkar unnu Króata í úrslitaleik mótsins, 25:21, og voru þar með handhafar allra stóru titlana þriggja í fyrsta sinn. Strákarnir okkar lögðu hinsvegar Pólverja, 29:26, og fögnuðu glæstum árangri eins og allir landsmenn gerðu, hvort sem þeir voru staddir í Vínarborg eða heima á Fróni enda höfðu strákarnir okkar í enn eitt skiptið lýst um dimman vetur. Tekið var á móti strákunum okkar með viðhöfn í Laugardalshöll mánudaginn 1. febrúar.

Bronsliðið á EM 2010 var skipað eftirtöldum leikmönnum: Björgvin Páll Gústavsson, Hreiðar Levý Guðmundsson, Vignir Svavarsson, Logi Geirsson, Aron Pálmarsson, Ingimundur Ingimundarson, Ásgeir Örn Hallgrímsson,  Arnór Atlason,  Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Ólafur Stefánsson, Sturla Ásgeirsson, Alexander Petersson, Sverre Andreas Jakobsson, Róbert Gunnarsson, Ólafur Andrés Guðmundsson.

Starfsmenn: Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari, Gunnar Magnússon aðstoðarþjálfari, Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarþjálfari, Ingibjörg Ragnarsdóttir sjúkranuddari og liðsstjóri, Elís Þór Rafnsson, sjúkraþjálfari, Andri Þór Karlsson, læknir, Einar Þorvarðarson fararstjóri og framkvæmdastjóri HSÍ, Knútur G. Hauksson, formaður HSÍ og Lothar Schanke þúsundþjalasmiður.