Ísland og Frakkland mættust í seinasta leik strákana okkar á Golden League í Noregi í dag. Heimsmeistararnir höfðu undirtökin nær allan leikinn, mest 5 mörk og oft leit út fyrir að þeir ætluðu sér að sigla fram úr íslenska liðinu en strákarnir neituðu að gefast upp og minnkuðu jafnt og þétt niður muninn. Elvar Örn Jónsson dróg vagninn sóknarlega í fyrri hálfleik og Ómar Ingi Magnússon sýndi frábær tilþrif í seinni hálfleik. Varnarlega sýndi liðið sitt rétta andlit sérstaklega í seinni hálfleik, þá náðu strákarnir upp þéttum varnarleik og baráttan skein úr andlitinu á ungu íslensku liði sem ætlaði sér að stríða heimsmeisturunum. Það gerðu þeir svo sannarlega og Ísland minnkaði muninn í aðeins eitt mark þegar 10 mínútur lifðu af leiknum og því spennandi lokamínútur framundan. Aftur náði franska liðið frumkvæði en þó aldrei meira en tvö til þrjú mörk. Ómar Ingi minnkaði svo muninn aftur niður í eitt mark og þegar ein og hálf mínúta var eftir fengu Íslendingar boltann og gátu jafnað metin í fyrsta skipti í leiknum en skot Ómars Inga fór framhjá og fannst mörgum að hann hafi átt að fá fríkast en fékk ekki. Frakkar náðu tveggja marka forystu strax í næstu sókn og þar við sat, 26-28 Frökkum í vil.

Íslenska liðið sýndi karakter að missa heimsmeistarana ekki of langt frá sér og voru óheppnir að ná ekki jafntefli. Golden League er því lokið, strákarnir okkar eru reynslunni ríkari og ljóst að framtíðin er virkilega björt. 

Það verður virkilega gaman að sjá liðið í Laugardalshöll þann 13. júní næstkomandi í seinni leik liðsins um laust sæti á HM 2019 á móti Litháen. Mikilvægir landsleikir strákanna okkar í júní hafa löngum verið frábær skemmtun þar sem Laugardalshöll er troðfull og gríðarlega mikil stemmning á pöllunum. Það er því um að gera að tryggja sér miða í tíma, mæta í bláu og styðja strákana okkar til sigurs og inn á HM sem verður haldið í Þýskalandi og Danmörku í janúar 2019.

Miðasala á Ísland – Litháen 13. júní er hafin hér.

ÁFRAM ÍSLAND!

Markaskorar og varin skot:

Elvar Örn Jónsson 7, Ómar Ingi Magnússon 4, Vignir Svavarsson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Bjarki Már Elíasson 3, Arnór Þór Gunnarsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 1, Stefán Rafn Sigurmannsson 1.

Björgvin Páll Gústavsson varði 7 mörk og Viktor Gísli Hallgrímsson 3.